Föstudagsfréttir GA

Októbertilboð í Golfhöllinni!
Októbertilboð í Golfhöllinni!

Góðan föstudag kæru GA félagar

Veðrið er svo sannarlega búið að leika við okkur síðustu daga og hefur spilamennska á vellinum aukist síðustu daga sem við tökum fagnandi hér á Jaðri. Það er um að gera að nýta þessa góðu daga sem hafa verið í golf og vonandi að við fáum góðan október og getum haldið áfram að njóta þess að spila golf á glæsilegum Jaðarsvelli.
Við viljum biðla til kylfinga að ganga vel um völlinn, gera við boltaför á grínum og torfusneplum á brautum. Umgengnin á vellinum hefur farið hrakandi á haustmánuðum og þurfum við öll að hjálpast að við að halda vellinum góðum á síðustu metrunum – það er gríðarlega mikilvægt fyrir þá vinnu sem við förum inn í í vetur. 

Bændaglíman var um síðustu helgi og tókst frábærlega! Rúmlega 80 GA félagar gerðu sér glaðan dag upp á velli og börðust undir handleiðslu Heiðars Davíðs og Stefaníu og fór það svo að lokum að lið Heiðars sigraði 13-8. Keppendur gæddu sér að súpu og brauði hjá Jóni Vídalín að leik loknum og þökkum við þeim fjölmörgu GA félögum sem lögðu leið sína á Jaðarsvöll fyrir þátttökuna.

GA derhúfur og hálskragar eru til sölu í afgreiðslu GA og hvetjum við fólk til að versla sér þessa munaðarvöru og vera merktir félaginu sínu, hér má sjá nánari upplýsingar : https://www.gagolf.is/is/um-ga/frettir/ga-derhufur-og-ga-halskragar-komnir-i-solu

Spil sumarsins hefur verið gott og um miðjan október höfðu rúmlega 13.000 hringir verið leiknir af GA félögum sem er sama magn og í lok október í fyrra og því fjölgun á spiluðum hringjum á meðal okkar sem við teljum frábæra þróun. Heildarspil þann 16. september var rúmlega 19.000 hringir og er það á pari við undanfarin ár. Við munum telja upp úr pokanum þegar völlurinn lokar og getum þá komið með frekari samanburð fyrir ykkur.

Á þriðjudaginn næsta, þann 1. október, hefjast vetratilboð á kortum í golfherma GA fyrir veturinn. Tilboðið verður enn betra enn í fyrra en munum við bjóða upp á 30% afslátt af kortum í október mánuði. Við hvetjum GA félaga til að versla sér kort í október fyrir veturinn og nýta sér þessa úrvalsaðstöðu sem við bjóðum félagsmönnum upp á. Inniaðstaða GA í Golfhöllinni er með besta móti og verður tekið vel á móti ykkur í vetur í kjallara Íþróttahallarinnar. Nánar um tilboðið má sjá á mynd með fréttinni.

Tilboð er á vetrarkennslu hjá Heiðari Davíð og Stefaníu, 5x30 mín kennsla kostar nú aðeins 20.000kr hjá þeim og er hægt að nýta kennsluna frá 1. nóvember – 1.maí. Kortin eru seld á skrifstofu GA og er takmarkað magn af kortum í boði.

Nú á morgun er styrktarmót barna, unglinga og afrekskylfinga GA og hvetjum við sem flesta til að taka þátt. Lítið af mótum eru eftir og nú er tækifæri til að taka þátt og lækka sig í forgjöf. Verðlaunin í mótinu eru vegleg og fer skráning á mótið fram á golf.is eða í síma 462-2974. Nánar um mótið má sjá hér: https://www.gagolf.is/is/um-ga/frettir/styrktarmot-barna-og-unglinga-hja-ga-a-laugardaginn

Góða helgi GA félagar og sjáumst á vellinum fram að lokun – einnig viljum við minna á að enn eru nokkrir dagar eftir af afslættinum í golfbúð GA og því um að gera að kíkja upp á Jaðar!