Sveitakeppni karla – 1.deild

GA sveit karla féll í 2. deild.

Sveitakeppni karla – 1.deild

Eftir frækinn sigur í fyrra á Kiðjabergi keppti karlasveit GA í 1.deildinni í ár. Leikið var í Leirdalnum á velli GKG.  Sveitin lenti í erfiðum riðli með GKJ, GSE og heimamönnum í GKG. Fyrsti leikur var á móti GKJ. Örn Viðar liðsstjóri lét þá Samúel og Sigurð Skúla spila saman í fjórmenning. Sú samsetning virðist hafa tekist mjög vel enda voru þeir sterkir í gegnum allt mótið. Þeir unnu fyrsta leik 2/1. Í kjölfarið komu sigrar frá Örvari og Bigga Haralds og óvæntur en frábær 3-2 sigur í höfn.  Leikurinn hefði getað endað 4-1 en Óli Gylfa tapaði á 20. holu í bráðabana gegn fyrrverandi Íslandsmeistara Kristjáni Þór Einarssyni.

Seinni leikurinn á föstudeginum var gegn heimamönnum í GKG. Tapaðist sá leikur 4-1 gegn sterkum GKG mönnum, leikurinn hefði þó getað fallið okkar í hag með smá heppni. Örvar vann sterkan sigur á landsliðsmanninum Guðjóni Henning. Sammi og Skúli töpuðu naumlega 1/0 og Birgir Haralds tapaði á 20.holu í bráðabana. Stöngin út ef svo má að orði komast. Ævarr Freyr ungur strákur úr GA fékk að spreyta sig á mót sjálfum Birgi Leif í þessari rimmu.

Í gær laugardag var svo lokaleikurinn í riðlunum og var hann gegn GSE. Nánast var um úrslita leik að ræða fyrir GA, sigur þýddi að við gætum verið á leið í undanúrslit en tap gæti þýtt að við færum í fallbaráttu. Leikurinn tapaðist með naumindum 3-2. Mætti kannski segja stöngin út annan leikinn í röð þar sem að leikir voru að klárast á lokaholunni. Örvar hélt áfram góðu gengi og vann Helga Birki 2/0 og Óli Gylfa vann Hjört Brynjarsson 3/1. Birgir Haralds tapaði 1/0, Björn Auðunn tapaði 3/1 og fjórmenningsparið tapaði óvænt 2/1 eftir gott gengi fram að þessu.

Niðurstaðan eftir riðlakeppnina var sú að GA endaði í 3.sæti og fórum í fallabaráttuna með GSE. Við tók nýr riðill sem skæri úr um það hverjir myndu falla um deild. Við fórum með fall á bakinu vegna tapsins á móti GSE. Hin liðin sem voru í riðlinum voru GKB og GK.

Eftir að hafa byrjað vel í mótinu var ljóst að við urðum að vinna báða leikina sem eftir voru ef við ætluðum okkar að halda okkur upp. Seinni partinn á laugardaginn var keppt við GKB en þeir fóru upp um deild með okkur í fyrra. Þetta var hörku rimma, Birgir Haralds vann góðan 4/3 sigur á Sigurði Pétri og Örvar vann enn og aftur, í þetta skiptið var það Örn Sölvi sem tapaði 3/2. Fjórmenningurinn kom sterkur til baka eftir svekkjandi tap í síðustu tveimur leikjum og unnu 4/3. Óli Gylfa og Jason töpuðu báðir í hörkuleikjum sem að kláruðust á 17. og 18. holu. Mikilvægur sigur og ennþá von um að halda sér uppi.

Síðasti leikurinn var á móti sterkri sveit GK, sú sveit sem kannski var að valda mestum vonbrigðum, enda bjuggust menn við að þeir væru að fara að berjast um titilinn. Eftir úrslit dagsins var þetta einfaldlega úrslita leikur um hvort liðið myndi falla.

Miðað við úrslit má kannski segja að við höfum mætt ofjarli okkar, en sá sem skrifar var ekki á staðnum. Axel Bóasson, núverandi Íslandsmeistari og félagar virtust vera staðráðnir í því að falla ekki en GK var nánast allan tíma með yfirhöndina. Óli Gylfa var eini sem að ógnaði þeim eitthvað af viti en tapaði í lokin 1/0. Birgir Haralds tapaði 6/5 gegna Rúnari Arnórssyni og Örvar tapaði 4/3 fyrir Björgvini Sigurbergssyni sem greinilega sýndi gamla takta. Sammi og Skúli töpuðu 4/2 í fjórmenningi og Björn Auðunn stóð smá í Íslandsmeistaranum Axeli Bóassyni en tapaði 3/2.

GA sveit karla endaði þar með í 7.sæti og féll niður í 2.deild. Takmarkið var að halda sér uppi að sjálfsögðu en því miður tókst það ekki. Sveitin í ár var ung og reynsluminni en undanfarið en verður þeim mun reynslumeiri á næsta ári. Á næsta ári tekur við 2.deildin og aðsjálfsögðu er stefnan sett á að fara rekleiðis upp aftur.