Mót og undirbúningur

Undirbúningur fyrir mót

6.flokkur og eldri

Þegar farið er að spila á Jaðar tekur venjulega 10-15 mín að ná í settið, græja sig og gera upphitunaræfingar. Þá á eftir að slá 30 bolta, vippa ca 20 sinnum, pútta ca 20 sinnum, nokkur pitch og bönker högg og þetta tekur 30-40 mín. Svo þarf viðkomandi að vera mættur við teiginn 10 mín fyrir sinn rástíma til að taka við skorkorti og vera klár. Þannig að fyrir aðila sem á teig kl.13 á spilæfingu þarf viðkomandi að mæta lágmark 60min fyrir teig á svæðið, skiljanlega er þetta ekki alltaf hægt en ef þetta er hægt þá er viðkomandi betur settur gagnvart mótum þar sem upphitun/undirbúningur tekur um 40-60mín og spilæfingar eru ætlaðar til undirbúnings fyrir mót.

 Þriðjudagsmót GA

 Leikið er á Jaðri og Dúddisen alla þriðjudaga á sumrin.  Þau sem spila Jaðar leika 9-18 holur eftir getu og aldri, þriðjudagsmótin eru aðallega æfing í því að undirbúa sig fyrir keppnishring eins og að mæta tímanlega fyrir teig til þess að hita upp og gera sig klár fyrir hringinn.  Þau sem spila Jaðar þurfa að skrá sig í þriðjudagsmótið á golfbox fyrir kl.17 á föstudegi, það er svo að nægur tími sé til þess að bóka rástímana fyrir þriðjudag.

Þau sem spila Dúddisen skrá sig ekki í gegnum golfbox, þau mæta bara á æfingatímanum sínum.  Þau sem þar spila eru aðallega að læra að ganga vel um völlinn, skrifa skorið sitt og halda leikhraða. Þau sem vilja komast á Jaðar þurfa að spila á 30 höggum eða minna, þrisvar sinnum yfir sumarið, til þess að fá að spila þar. Þegar þau eru farin að ná því þá eru þau kominn með getu til þess að spila á skikkanlegum hraða og getu á Jaðri. 

Akureyrarmót

Stærsta mót ársins.  Að verða Akureyrarmeistari jafngildir því að vera bestur/best á landinu. 14 ára og yngri keppa í Akureyrarmóti barna og unglinga sem stendur yfir í tvo daga. 15 ára og eldri skrá sig í Akureyrarmótið og keppa í forgjafarflokkum sem þeim hentar.

Norðurlandsmótaröðin 2024

Sérstök mótaröð er starfrækt á Norðurlandi fyrir börn og unglinga á aldrinum 6-18 ára og er kjörin vettvangur til að stíga sín fyrstu skref í keppnisgolfi.  Auk Golfklúbbs Akureyrar koma Golfklúbburinn Hamar, Golfklúbbur Ólafsfjarðar og Golfklúbbur Sauðárkróks að mótaröðinni. 

Keppt er í eftirfarandi flokkum: Byrjendaflokkur leikr 6 holur, 12 ára og yngri leika 9 holur, 13-14 ára leika 18 holur, 15-18 ára leika 18 holur.  Í byrjendaflokki er boltinn tekinn upp ef búið er að slá 9 högg og skrifað 10 á skorkortið.

Skráning fer fram á Golfbox og lýkur kl.12 daginn fyrir mót.

Dagsetningar eru eftirfarandi:

  • 16.júní GA
  • 7. júlí GHD (Dalvík)
  • 22. júlí GFB (Ólafsfirði)
  • 11. ágúst GSS (Sauðárkróki)
  • 14.sept GH (Húsavík)

Nánari upplýsingar um mótaröðina er að finna á Facebook hópnum Norðurlandsmótaröðin í golfi: https://www.facebook.com/groups/830641210403482/

GSÍ Mótaröð Barna og Unglinga

Golfsamband Íslands stendur fyrir og skipuleggur árlega mót fyrir börn og unglinga. Efnilegustu kylfingar landsins í barna- og unglingaflokkum keppa um sigur í þremur mismunandi aldursflokkum í flokki drengja og stúlkna: 14 ára og yngri, 15-16 ára og 17-18 ára.

Hópferðir í GSÍ mótaröð unglinga

  • Verð 12.500.kr og nýti iðkandi sér einhvern hluta ferðarinnar greiðir hann fullt gjald
  • Innifalið er rúta og gisting
  • Foreldri fari sem fararstjóri og keyri bílinn

Íslandsmót Golfklúbba (Liðakeppni) 

Íslandsmót golfklúbba í barna- og unglingaflokkum fer fram í aldursflokkunum 12 ára og yngri, 13-14 ára, 15-16 ára og 17-18 ára.
6 leikmenn geta skipað hverja sveit en 4 spila hverja umferð. 
Val í sveitirnar er í höndum þjálfara GA.

Hver klúbbur sem sendir leikmenn á mótið skal tilnefna liðsstjóra. Liðsstjóri skal gæta hagsmuna keppenda viðkomandi klúbbs og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart mótsstjórn, þó ekki umfram það sem golfreglur heimila. Liðsstjóri skal fyrir hönd viðkomandi klúbbs vera ábyrgur fyrir greiðslu þátttökugjalds.

Í Íslandsmóti golfklúbba 12 ára og yngri mega sveitir vera skipaðar drengjum eingöngu, telpum eingöngu eða vera blandaðar báðum kynjum.  

Leikið verður eftir PGA Junior League fyrirmyndinni, sem kallast PGA krakkagolf á Íslandi.

Hver sveit skal skipuð að lágmarki 4 leikmönnum og að hámarki 6 leikmönnum.

Leiknar eru 9 holur í hverri umferð með Texas Scramble fyrirkomulagi, sem skiptast upp í þrjá þriggja holu leiki. Hver þriggja holu leikur gefur eitt flagg.

Liðsstjóri ákveður tvo keppendur sem hefja leik og jafnframt raðar niður varamönnum ef einhverjir eru í liðinu. Hver keppandi verður að leika að minnsta kosti eitt flagg (3 holur).

Hver viðureign tveggja klúbba gefur 1 stig því liði sem sigrar. Alls eru 6 flögg í pottinum og það lið sem leikur á færri höggum samtals hvern þriggja holu leik vinnur það flagg. Það lið sem vinnur fleiri flögg samtals vinnur viðureignina og eitt stig. Ef lið leika þriggja holu leik á jafn mörgum höggum fær hvort lið hálft flagg. Ef lið skilja jöfn með 3 flögg fær hvort lið hálft stig.

Hver ráshópur verður að hafa einn fullorðinn einstakling sem heldur utan um skorið.

Kylfuberar eru ekki leyfðir.

Keppninni er skipt upp í deildir, sem að hámarki geta orðið fjórar miðað við að leikið sé á 9 holu velli. Í hverri deild eru 6 sveitir og skal raða í deildir eftir forgjöf fjögurra forgjafarlægstu kylfinganna í hverri sveit.

Sex forgjafarlægstu sveitirnar fara í Hvítu deildina, næstu í Gulu deildina, næstu í Bláu deildina og loks í Rauðu deildina. Þó getur hver klúbbur aðeins verið með eina sveit í hverri deild. Þegar ljóst er hvaða sveitir skipa hverja deild skal draga um númer (1-6) hverrar sveitar í deildinni.

Sækja má um heimild til mótsstjórnar um að tveir eða fleiri klúbbar sendi sameiginlega sveit til keppni af sama landssvæði ef ekki reynist unnt að manna sveit til keppninnar.

Aldur miðast við almanaksár.