Vinnufúsir - Mót á vegum Vallarnefndar GA

Mót þetta var ætlað öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg.....

Eins og flestum er kunnugt tókst vinnudagurinn sem var haldinn í tengslum við opnun vallarins í vor með afbrigðum vel. Mæting var sérlega góð og mikið og gott verk unnið bæði á vellinum og í kring um skálann og við hann. M.a snyrting og gróðursetning trjáa, viðhald á brúm.  Byggð var ný brú á 10 braut, lagfærðar girðingar og margt fleira.  þá var einnig unnið gott verk í og við skálann, borið á útihúsgögn málað og snyrt. Og að lokum endað á að opna völlinn með móti sem við höfum kosið að nefna Vinnufúsir, og endað með kaffihlaðborði sem reitt var fram af vaskri sveit kvenna. Önnur verk sem unnin voru í sumar með aðstoð vinnufúsra, eru helst að byggðar voru tvær brýr á 12 holu, þökulögn í kringum grín á 15 og byrjað var á að setja upp nýja bekki við teiga, fyllt á sandglompur og byrjað á breytingum á bílastæði.

Spilaðar voru 9 holur - ræst út á öllum teigum það mættu 51 til leiks og var veðrið eins og best verður á kosið. Sól og blíða. Í mótslok voru konurnar í klúbbnum búnar að reiða fram dýrindis kökuhlaðborð eins og þeim einum er lagið.

Vallarnefnd vill koma þakklæti til allra Vinnufúsra og einnig til þeirra sem studdu þetta mót en það voru Norðland Air, Húsasmiðjan, Brúin, JMJ/Joe´s Norðlenska, N1, Toppmenn og sport, David Barnwell golfkennari og  Anna Freyja.

Veitt voru verðlaun fyrir 3 efstu sætin í þessu seinna móti og bar Anton Ingi Þorsteinsson sigur úr bítum´með 21 punkt á 9 holum, í 2. sæti var Brynleifur Hallsson með 19 punkta og Sólveig Erlendsdóttir var í því 3. með 18 punkta.

Næst holu á 11. braut var Stefanía Jónsdóttir 3.80 m frá holu og á 18 braut Konráð Vestmann (Konni kokkur) hann var 2.27m frá.

Ótal vinningar voru dregnir úr skorkortum allra úr báðum mótum.

ps. Smá hughreysting fyrir þá sem vildu gjarnan gera betur, þá viljum við reyna að hafa einn stuttan vinnudag seinna í haust, þar sem eitthvað á eftir að gróðursetja af trjám sem við eigum í geymslu, og einnig væri gaman að taka aðeins til hendinni í trjáklippingum og kannski fleiru. Nánar um það síðar.