Vel heppnuð æfingaferð GA til Ballena í apríl

Í aprílmánuði síðastliðnum lagði stór hópur kylfinga frá Golfklúbbi Akureyrar af stað í æfingaferð til Spánar og spiluðu golf við frábærar aðstæður á Costa Ballena. 

25 ungir kylfingar fóru í ferðina ásamt þjálfurum, fararstjórum og foreldrum og var gríðarlega góð stemming í hópnum. Iðkendur voru frá 12 ára upp í þrautreynda meistaraflokkskylfinga og var hópurinn úti frá 12-19 apríl.

Þjálfarar voru virkilega ánægðir hvernig til tókst í ferðinni og mátti sjá miklar framfarir hjá iðkendum í ferðinni. Haldið var tveggja daga golfmót í lok ferðarinnar og má einnig gjarnan geta þess að einn af okkar efnilegustu kylfingum, Skúli Gunnar Ágústsson yngri, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á par 4 holu á vellinum. Hvorki fleiri né færri en 310 metrar voru af teig að flaggi og má svo sannarlega segja að þetta hafi verið draumahöggið hjá Skúla Gunnari.

Við hjá GA erum stolt af krökkunum okkar og hvernig þau stóðu sig í ferðinni og hlökkum til að fylgjast með þeim taka þetta veganesti með sér inn í sumarið og spila flott golf fyrir GA í sumar.