Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni 14 ára og yngri

Veigar með bikarinn! mynd:GSÍ
Veigar með bikarinn! mynd:GSÍ

Íslandsmóti unglinga í holukeppni lauk í gær á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja og var GA með fjölda þátttakenda í mótinu í ár.

GA krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði en þó enginn betur en Veigar Heiðarsson sem gerði sér lítið fyrir og landaði Íslandsmeistaratitlinum í flokki 14 ára og yngri, frábær árangur hjá Veigari sem er aldeilis búinn að eiga flott sumar. Hann tók í fyrsta skiptið þátt í Íslandsmótinu í golfi og gerði sér lítið fyrir og fór í gegnum niðurskurð! Framtíðin er svo sannarlega björt hjá Veigari. Veigar sigraði Markús Marelsson 3/2 í úrslitaleiknum. Skúli Gunnar Ágústsson tók einnig þátt í 14 ára og yngri og komst í 8 manna úrslit þar sem hann tapaði 1/0. Þá tapaði Ragnar Orri 6/4 í 16 manna úrslit. Þá komst Ólafur Kristinn Sveinsson ekki í 16 manna úrslit í flokki 14 ára og yngri.

Þá voru þær Auður Bergrún og Birna Rut að keppa í flokki 14 ára og yngri stelpuflokki og komust þær báðar í 16 manna úrslit, Auður tapaði sínum leik 1/0 og Birna Rut tapað 7/6.

Í flokki 15-16 ára drengja var Óskar Páll Valsson í stuði og gerði sér lítið fyrir og endaði í 3.sæti eftir 2/0 sigur í leiknum um 3.sætið. Flottur árangur hjá Óskari sem er búinn að spila flott golf í sumar. Í stúlknaflokki 15-16 ára var hún Kristín Lind Arnþórsdóttir meðal keppenda og komst hún í 16 manna úrslit en tapaði þar 5/3.

Í flokki 17-18 ára drengja var GA með þrjá keppendur, þá Mikael Mána, Patrik og Lárus Inga. Patrik rétt missti af því að komast inn í 16 manna úrslit en þeir Lárus og Mikael Máni fóru þangað. Þeir urðu hins vegar báðir að sætta sig við tap í 8 manna úrslitum, Mikael tapaði á annarri holu í bráðabana gegn Tómasi Hjaltested sem endaði í 3.sæti og Lárus tapaði 1/0 gegn Böðvari Braga sem endaði í 2.sæti. Fínn árangur hjá strákunum.

Í flokki 17-18 ára stelpna var Andrea Ýr Ásmundsdóttir á meðal keppenda og endaði í hún 3.sæti eftir 2/0 sigur í leiknum um 3. sætið. Vel gert hjá Andreu Ýr.