Eins og GA félagar lásu hér í síðustu viku tók Veigar Heiðarsson, afrekskylfingur úr GA, fyrstur Íslendinga þátt á US Junior Amateur Champhionship sem haldið var í Dallas, Texas.
Jón Heiðar, skrifstofustjóri GA, hitti Veigar og ræddi ævintýrið við hann og hvernig var að taka þátt á svona flottu og stóru móti.
Hvernig kom það til að þér var boðið á þetta mót?
Ég var topp 100 á heimslista áhugamanna yngri en 18 ára og fékk boð á mótið.
Hvernig var upplifun þín af mótinu?
Geðveik – flottasta mót sem ég hef farið á. Umgjörðin til fyrirmyndar, endalausir sjálfboðaliðar að skutla á milli staða, frír matur og fullt af teiggjöfum. Einstök upplifun.
Hvernig voru vellirnir sem spilaðir voru samanborið við íslenska velli, lengd, gæði og annað?
Mun lengri, voru á bilinu 6800-7000 metrar. Röffið mjög þykkt og greenin stimp 14 og varla þurfti að snerta kúluna þegar maður var að pútta niður í móti.
Hvernig var tilfinningin að missa köttið með einu höggi? Eitthvað högg sem situr sérstaklega í þér?
Mjög svekktur. Það eru tvö högg sem koma strax upp í hugann, stutt þrípútt á fimmtu seinni daginn og svo upphafshöggið á síðustu holunni þar sem ég setti hann undir tré og þurfti að chippa út frá því. Þá var playoff +4 en svo fékk einn birdie á síðustu og köttið fór í +3.
Var smá sárabót að komast heim og keppa með strákunum í Íslandsmóti golfklúbba?
Já það var algjör veisla, linaði sársaukann strax aðeins.
Hvað er næst á dagskrá hjá Veigari?
Íslandsmótið í golfi hjá Keili í byrjun ágúst og síðan háskólinn. Fer út 14. ágúst og skólinn byrjar stuttu seinna.
Hvernig er dagur í lífi háskólagolfara?
Skóli 8-10 þrjá daga vikunnar 8-12 hina tvo dagana. Síðan bara nóg af golfi.
Við óskum okkar manni góðs gengis í komandi verkefnum og hlökkum til að fylgjast með honum í háskólagolfinu í haust.


