Úrslit úr sveitakeppnum eldri kylfinga

Myndarmenni í karlkyns sveit eldri kylfinga
Myndarmenni í karlkyns sveit eldri kylfinga

Um helgina spiluðu sveitir eldri kylfinga í GA í hinu skemmtilega Íslandsmóti golfklúbba fyrir sunnan. Karlasveitin spilaði í Keflavík á meðan konurnar léku í Öndverðarnesi.

Strákarnir voru í riðli með GK, GÖ og NK sem reyndist gífurlega jafn riðill. Keilismenn sigruðu alla sína leiki á meðan hin 3 liðin deildu með sér sigrunum og sátu hvert með 1 sigur að riðlinum loknum. Okkar menn í GA enduðu í 2. sæti riðilsins þar sem þeir voru með fleiri innbyrðis sigra en GÖ og NK, og voru því komnir í undanúrslit mótsins. 
Þá mættu þeir gífurlega sterkri sveit GR, og endaði sá leikur með 4-1 sigri Reykvíkinga. Í leiknum um bronsið spilaði sveitin við GKG, og endaði sá leikur með öðru 4-1 tapi okkar manna sem þurftu að sætta sig við 4. sætið. 

Kvennasveitin átti erfitt uppdráttar í riðlinum sínum þar sem þær spiluðu leiki við GK, NK og GM. Töp í þeim leikjum skilaði 4. sæti riðilsins og ljóst var að stelpurnar þyrftu að eiga góða leiki til að halda sér í deildinni. Næsti leikur var spilaður við sameiginlega sveit Hamars og Fjallabyggðar sem endaði með naumu 3-2 tapi GA kvenna og þurfti því að leggja allt í síðasta leikinn gegn GO. Það hafðist með öruggum 3.5-1.5 sigri og höfnuðu stelpurnar því í 7. sæti.

Fínn árangur hjá báðum liðum í þessu skemmtilega móti sem verður vonandi enn betri á næsta ári. 

skemmtileg mynd af kvennasveitinni