Úrslit úr Hjóna- og parakeppni Golfskálans og GA

Hin árlega hjóna- og parakeppni Golfskálans og GA fór fram síðustu tvo dagana í frábæru veðri á Jaðri. Rúmlega 200 kylfingar mættu til leiks, en leikinn var betri bolti á fyrri deginum og greensome þann seinni. Sigurvegarar mótsins voru þau Anna Einarsdóttir og Arinbjörn Kúld úr Golfklúbbi Akureyrar. Anna og Ari voru jöfn í efsta sæti eftir fyrri hringinn og spiluðu flott golf á seinni hringnum og enduðu mótið á 20 höggum undir pari. Það var því mikilvægur fuglinn sem þau fengu á 18. brautinni eftir frábært upphafshögg Önnu. Þetta er í 3. skiptið sem hjónin vinna mótið svo ljóst er að þau spila frábærlega saman hérna á Jaðarsvellinum. 

Samkvæmt nýjum Covid reglum gátum við ekki haft hefðbundin nándarverðlaun í mótinu, eins og nándarverðlaun eða lengsta drive. Í staðin voru hvorki meira né minna en 23 útdráttarverðlaun í mótinu, svo margir gengu sáttir heim með flott og óvænt verðlaun. 

Þar sem ekkert lokahóf gat verið haldið var flæðandi matur í skálanum til að tryggja öryggi keppanda með því að aldrei séu fleiri en 100 inni í einu. Vídalín veitingar buðu því upp á dýrindis nautalund og drykki með því fyrir keppendur þegar þeir kláruðu hringinn, sem voru ánægðir með matinn. 

Allir verðlaunahafar geta mætt í verslun Golfskálans fyrir sunnan og látið vita þegar þau hyggjast ætla nota inneign sína. Þökkum öllum keppendum kærlega fyrir þátttökuna og hlökkum til að sjá ykkur á komandi ári. 

Úrslit:

1. -20 Anna Einarsdóttir og Ari Kúld 

2. -19 Sævar Gestur og Anna Gréta

3. -18 Ásta Mósesdóttir og Páll Þórir Hermannsson

4. -18 Björg Ýr Guðmundsdóttir og Óskar Jensson

5. -18 Jason James Wright og Brynja Herborg Jónsdóttir

6. -15 Linda Hrönn Benediktsdóttir og Stefán Gunnlaugsson

7. -13 Óli Reynir Ingimarsson og Bjarney Guðmundsdóttir

8. -12 Kristín María Kjartansdóttir og Ingólfur Hauksson