Úrslit sveita GA í Íslandsmóti golfklúbba

Kylfingar GA voru á ferð og flugi alla helgina að keppa fyrir hönd klúbbsins í Íslandsmóti Golfklúbba

 

Sveit 15 ára og yngri stúlkna spilaði í Vestmannaeyjum og lönduðu þar 5. sætinu. Mikill liðsandi og gleði ríkti á vellinum, líkt og sést á myndinni með fréttinni. Svo sannarlega flottur árangur hjá stelpunum og góð reynsla þar að auki, þar sem þær eiga allar nokkur ár eftir í þessum flokk. 

 

Sveit 15 ára og yngri pilta spilaði frábært golf á Flúðum um helgina og voru ekki langt frá Íslandsmeistaratitlinum. Strákarnir enduðu í 3. sæti, en það var bráðabani sem skar úr um hvort þeir færu í úrslitin eða í bronsleikinn. Óheppnir en flottir!

 

Sveit 18 ára og yngri drengja spilaði sitt mót einnig í Vestmannaeyjum, og fengu einn lánaðan frá Sauðárkróki til að spila með fjögurra manna kjarna GA. Þeir enduðu í 6. sæti, en það vantaði oft bara herslumuninn hjá þeim, en góður árangur samt sem áður.

 

Sveit eldri karla lék í 2. deild á Borgarnesi og átti í ótrúlega litlum erfiðleikum með að sigra þá deild, en úrslitaleikinn sjálfan unnu þeir 5-0 og enduðu mótið með leikjahlutfallið 22-3. Frábær spilamennska hjá drengjunum og leika þeir því í 1. deild að ári. 

 

Sveit eldri kvenna spilaði eins og áður hefur komið fram hér á Jaðri og luku þær leik í 4. sæti. Þær halda því sætinu sínu verðskuldað í 1. deild, og stefna bara hærra á næsta ári

 

Skemmtileg mót og góður árangur hjá okkar sveitum einkenndi helgina, en nú förum við að huga að boðsmótunum og VW open sem eru á komandi döum og vikum

 

Góðar stundir

Stórglæsilegt lið heldri manna sem spilaði frábært golf í Borgarnesi!