Úrslit í Bleika Toppbikarnum

Bleiki Toppbikarinn er fjáröflunarverkefni Krabbameinsfélagsins og Vífilfells í samvinnu við GSÍ. Allur ágóði af verkefninu verður nýttur til eflingar leitarstarfs á vegum Krabbameinsfélagsins.

Bleiki Toppbikarinn er mótaröð sem styrkt er af Vífilfelli og var fyrsta mót sumarsins haldið að Jaðri á Akureyri föstudaginn 12. júní í blíðskapar veðri. Fyrirkomulagið var Texas Scramble punktakeppni með forgjöf og fékk sigurliðið þátttökurétt á lokamótinu sem haldið verður í Borgarnesi 12. september. Hjónin Fylkir Þór Guðmundsson og Matthea Sigurðardóttir urðu hlutskörpust að þessu sinni en þau spiluðu frábært golf og fengu 46 punkta. Í öðru sæti urðu mæðgurnar Guðlaug María  og Petrea Jónasdóttir með 43 punkta. Í þriðja sæti voru Heimir Örn Árnason og Hjalti Þór Pálmason með 41 punkt, og í fjórða og síðasta verðlaunasætinu voru Árný Lilja og Rafn Ingi með 39 punkta. Það var brugðið uppá þeirri nýjung í ár að öll lið fengu eina bleika kúlu og áttu að slá hana til skiptist, keppt var um hver kæmi kúlunni lengst án þess að týna henni. Sigurvegarar í þessari annars skemmtilegu keppni urðu þau sömu og unnu mótið en það voru þau Fylkir Þór Guðmundsson og Matthea Sigurðardóttir, þau komu beiku kúlunni í mark á 82 höggum.

Næst holu á 4. braut varð Margrét Einarsdóttir en hún var 2.19 m frá holu. Á 6. holu var Kristín Walker næst en hún var 3.90 m frá holu. Á 11. holu var Kristín Björnsdóttir næst holu en hún var 5,33 m frá holu. Á 18. holu var Heimir Örn Árnason næst holu en hann var 3,10 frá holu. Í lokin var dregið úr skorkortum og var vinningurinn ekki af verri endandum, en það var þátttökuréttur á lokamótið í Borganesi eins og sigurvegararnir hlutu. Þeir heppnu voru Hreiðar Gíslason og Guðmundur Finnsson.