Umfjöllun erlendra blaðamanna um golf á Íslandi

Ragnheiður Jónsdóttir skrifar þann 21.10 2010 á www.igolf.is

Erlent fjölmiðlafólk og fulltrúar erlendra ferðaskrifstofa hafa fjölmennt til Íslands í sumar í þeim tilgangi að kynna sér golf á Íslandi. Þannig hafa 58 einstaklingar frá 11 löndum sótt landið heim einvörðungu í þeim tilgangi að kynna sér golf og Ísland í kjöfarið fengið umfjöllun á stærsta golfvef Þýskalands, golf.de., auk fjölmargra annarra golffréttamiðla; t.a.m.: golf.dk (stærsta golfvef Danmerkur), Golfavisen, Norsk Golf, Svensk Golf og Rhein Golf Magazin.

Ein þeirra sem sótti Ísland heim er þýska golffréttakonan Angelika Lerche. Hún gerði úttekt á 5 golfvöllum á Íslandi; Hvaleyrinni, Urriðavelli, Korpu, Grafarholtinu og Jaðarsvell. 

Hér verður sagt frá umfjöllun Angeliku um  Jaðarsvöll á Akureyri, en í gegnum skrif hennar skín hversu hrifin hún er af öllu Norðanlands. Hér á eftir fer grein Angeliku í lauslegri þýðingu, en fyrst gefur hún almennar upplýsingar um völlinn og svo álit sitt:

"Akureyri Golf Club - stofnaður 1935
Heimilisfang: Jaðar, 600 Akureyri, Island
Símanr.: 00354/ (0)462 29 74
Holur: 18
Par: 71
Herrar: 5.825 metrar (hvítir teigar), CR 70,6, Slope 134; 5.475 metrar (gulir teigar), CR 68,7, Slope 127;
Dömur: 5.082 metrar (bláir teigar), CR 72,7, Slope 125; 4.612 metrar (rauðir teigar), CR 69,8, Slope 122;
Golfvallarhönnuðir: Magnús Guðmundsson, Gunnar Þórðarson, Edwin Roald
Vallargjöld:
18-holu-vallargjald: 25 evrur
18-holu-vallargjald: Lau/Sunn/Helgidaga: 32 evrur
Lækkun á vallargjaldi fyrir pör: 42/48 evrur
Aðstaða: Golfbílar, golfkerrur, æfingasvæði, proshop, golfskóli, veitingastaður.

Stutt um golfvöllinn:  Skv. Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews er golfvöllurinn á Akureyri sá norðlægasti í heiminum. A.m.k. er hann svo nálægt heimsskautsbaug, að á miðsumarsnóttum í kringum 21. júní gengur sólin ekki til viðar. Þá fer hér fram þekktasta golfmót Íslands, Arctic Open. Þátttakendur koma frá öllum Herrans ríkjum í heiminum til þess að missa ekki af upplifuninni.

Akureyri Golfclub var stofnaður 1935 og er næstelsti golfklúbbur á Íslandi. Magnús Guðmundsson, sem er fyrsti kylfingur Íslands af alþjóðlegri gráðu, hannaði fyrstu 9 holurnar á núverandi golfvellinum. Það var ekki fyrr en 1980 sem völlurinn var á grundvelli hugmynda frá Guðmundssyni og í samvinnu við Gunnar Þórðarson, stækkaður í 18 holu völl, sem aftur á móti hefir stöðugt verið í endurhönnun af golfvallararkitektinum, Edwin Roald. Útkoman er nútíma hönnun, sem hefir af kostgæfni verið löguð að náttúrulegu umhverfi. Oftast er slegið af upphækkuðum teigum, en flatirnar og breiðar brautir eru umgirt trjám og klettum og breiða sig út á hæð, sem býður upp á frábært útsýni á nærliggjandi fjöll.  A.m.k. á tíma miðsumarsnóttanna, þegar heimsskautssólin við 4. eða 5. teighögg speglar sig í Eyjafirðinum og himininn verður logandi rauður, þá á sérhver kylfingur á hættu að gleyma skorinu sínu.

Efni: Grein Angeliku Lerche, í þýðingu Ragnheiðar Jónsdóttur