Til allra GA félaga

Kæru klúbbmeðlimir

Mig langar að kynna sjálfan mig og það starf sem ég sé framundan í klúbbnum þar sem ég hef verið ráðinn sem yfirþjálfari golfklúbbsins ykkar.

Ég heiti Heiðar Davíð Bragason, fæddur og uppalinn á Blönduósi, giftur Guðríði Sveinsdóttur og á með henni tvo orkumikla drengi. Ég er menntaður íþróttafræðingur og er PGA vottaður golfkennari. Ég hef unnið við Dalvíkurskóla frá 2009 og þjálfað Golfklúbbinn Hamar Dalvík samhliða grunnskólakennslunni. 

Ég hef stundað golf frá tíu ára aldri og stundaði einnig fótbolta og handbolta samhliða golfi á unglingsaldri. Það kom svo að því að það þurfti að velja sér sport og frá þeim tíma hefur forgjöfin farið lægst niður í -3,6 en er búin að hækka jafnt og örugglega síðustu ár og stendur forgjöfin í 0,6 eins og er. Ég var á sínum tíma landsliðsmaður, íslandsmeistari í höggleik og sveitakeppni, sigurvegari á opna spænska og opna velska áhugamannamótinu, valinn í evrópuúrval sem keppti gegn Stóra Bretlandi og Írlandi og reyndi fyrir mér í atvinnumennsku. Ég hef alltaf verið tilbúin að leggja mikið á mig til þess að ná árangri sem leikmaður og nú á síðustu árum sem þjálfari.

Hvað GA varðar þá er aðstaðan til þess að ná árangri til staðar. Ég hef ég mikin metnað fyrir barna-, unglinga- og afreksstarfinu og vonandi tekst mér að hjálpa þeim sem þar eru að upplifa sína drauma. Í sumar mun ég svo líka bæta við æfingum hjá þeim öldungum sem stefna á að keppa á íslandsmóti klúbba. Ég vil opna aðstöðu GA fyrir aðra kennara og get ekki séð annað en að það hjálpi til við að fjölga fólki í klúbbnum og veita þeim félögum sem fyrir eru í klúbbnum meiri þjónustu og fjölbreytni. Það þýðir samt ekki að ég vilji ekki þjónusta hinn almenna félagsmann og síminn hjá mér er alltaf opinn vilji fólk fá tíma hjá mér.

Eins og staðan er núna klára ég skólaárið sem grunnskólakennari og ég er með samning við Golfklúbbinn Hamar ásamt því að hefja þjálfun hjá GA. Ég er því að sinna krökkum frá 8-19 alla virka daga og svo verða einnig einhverjar æfingar um helgar hjá GA. Það verður því nóg að gera fram í fyrstu viku júní, sem er bara fínt, en þá lýkur skólastarfinu. Frá þeim tíma sinni ég eingöngu golfkennslunni og mun ekki hefja aftur störf í skólanum næsta haust. 

Það verða því engin námskeið auglýst af mér núna í vetur en eins og ég sagði þá er síminn alltaf opinn og helgarnar nokkuð opnar fyrir kennslu. Stefanía, aðstoðarþjálfari klúbbsins, mun setja upp byrjenda námskeið á næstunni og auglýsa þau. Við þjálfararnir munum svo setja upp byrjenda námskeið í maí-júní en komum ekki til með að geta sett dagsetningar á þau fyrr en mótaskrá GSÍ er gerð opinber. Það er ekki búið að setja upp verðskrá hjá mér en það mun gerast núna á næstunni og verður sett á heimasíðu GA og í inniaðstöðu klúbbsins.

Ég vil að lokum þakka góðar viðtökur og hlakka mikið til næstu ára hér í GA.

Heiðar Davíð Bragason, PGA þjálfari.

S: 698 0327