Þrjár GA unglingasveitir á palli á Íslandsmótum Golfklúbba

GA sveitirnar spiluðu vel á Garðavelli
GA sveitirnar spiluðu vel á Garðavelli

Nú er Íslandsmóti Golfklúbba hjá unglingunum lokið. GA átti fjórar sveitir, þar af voru 2 drengjasveitir og 1 kvennasveit að spila í flokki 15 ára og yngri á Akranesi og 1 piltasveit að spila á Hellu í flokki 18 ára og yngri. Síðustu leikirnir fóru fram seinnipart laugardags og náðu GA sveitirnar flottum árangri þegar upp var staðið.

15 ára og yngri

Stelpusveitin lék á móti A sveit GM á laugardagsmorgun um að komast í úrslitaleikinn. Sá leikur var brekka fyrir GA stelpurnar og náðu GM stelpur í öruggan 3-0 sigur. GA stelpurnar léku þá um bronsið seinnipartinn á móti sveit GK og rúlluðu þeim leik upp 3-0. Bronsið örugglega í hús hjá stelpunum.

GA/GH B karlasveitin spilaði á móti sveit GOS um 8. sætið seinnipart laugardags. Það var mikil spenna í þeim leik þar sem fjórmenningurinn fór í bráðabana en GOS tóku þann leik og tryggðu sér því 2-1 sigur. GA/GH B sveitin endaði því í 9. sæti, fínasti árangur hjá þeim.

GA-A sveitin hjá strákunum sigraði A sveit GKG á laugardagsmorgun örugglega og tryggðu sér því sæti í úrslitaleiknum. Sá leikur gekk ekki alveg eins vel en Golfklúbburinn Keilir tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í þeim leik. Þrátt fyrir það var þetta flottur árangur hjá okkar mönnum og koma þeir með silfrið heim.

18 ára og yngri

GA sveit 18 ára og yngri spiluðu við Golfklúbbinn Keili uppá þriðja sæti og höfðu okkar menn betur 2-1. Glæsilegur árangur hjá þeim að tryggja sér bronsið.

Flottur árangur hjá öllum sveitum og nú er það bara æfa meira til að komast ofar á pallinn á næstu árum.