Tæplega 30 þúsund hringir spilaðir á Jaðarsvelli í sumar!

Það má með sanni segja að Jaðarsvöllur hafi verið í toppstandi í sumar og muna elstu menn varla eftir að völlurinn hafi opnað í betri ásigkomulagi en í ár. Völlurinn opnaði þann 11. maí og má segja hann hafi formlega lokað 26. október þrátt fyrir að nokkrir dagar í byrjun október hafi verið óspilhæfir voru síðustu hringirnir að spilast í lok október. Völlurinn var því opinn í 168 daga sem er það mesta frá því að talningar hófust 2014. 

Það var mikil eftirvænting eftir opnun Jaðarsvallar enda var veturinn okkur hliðhollur og mikil og góð vinna unnin um veturinn sem skilaði sér í stórglæsilegum golfvelli í sumar. Vinnudeginum var þrískipt eftir vinnu á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi og var völlurinn svo formlega opnaður á fimmtudagsmorgni í rjómablíðu. Opnað var inn á sumarflatir á öllum holum og fór hitinn hæst í 18 gráður á opnunardegi sem skilaði sér í 199 kylfingum á völlinn!

Að meðaltali frá tímabilinu 11.maí-26. október voru 176 hringir spilaðir á dag á Jaðarsvelli sem er það næst mesta frá því að talningar hófust, ef tekið er meðaltal frá opnun og út september voru hringirnir 201 á dag. Ef farið er enn dýpra í tölurnar og skoðaðir stærstu sumarmánuðrnir, júní, júlí og ágúst voru spilaðir 234 hringir á dag að meðaltali en fjölmennasti mánuður sumarsins var ágúst en þá voru 7536 hringir spilaðir á Jaðarsvelli. 

Það er ljóst að sumarið í ár var algjört metár í spiluðum hringjum á frábærum Jaðarsvelli. Við vonumst svo sannarlega til þess að áfram haldi svona á næsta ári og GA félagar og gestir njóti þess að spila völlinn okkar sumarið 2024. Nú þegar hefur góð vinna verið lögð í að gera völlinn enn eftirsóknarverðari næsta sumar og hlökkum við til að taka á móti ykkur sumarið 2024.