Sveitakeppni unglinga á Flúðum

GA er með 2 sveitir drengja á Flúðum. Hér koma pistlar frá farastjórum.

2 vaskar sveitir unglinga eru staddar á Flúðum. Eftir höggleikinn í dag liggur fyrir að A sveitin er í 3. sæti eftir daginn og B sveitin í 7. sæti. Þær keppa því báðar i 8 líða úrslitum af 23 sveitum - tómir snillingar - getum ekki annað en verið ótrúlega stolt af þeim :)

Kveðjur frá farastjórum:

Þá er dagur eitt að baki hér á Flúðum.

Hópurinn hélt af stað um áttaleytið í morgun frá Jaðri á tveimur bílum og lá leið beint í golfskálann hér á Flúðum, enda allir spenntir að taka völlinn út. Hér var leikinn æfingahringur og flatir og brautir stúderaðar og skráðar niður helstu upplýsingar eftir kúnstarinnar reglum. Hópurinn almennt sammála um að völlurinn sé skemmtilegur og krefjandi. Óhætt að segja að flatirnar séu talsvert frábrugðnar þeim heima á Jaðri, allar mun mýkri hér. Eftir svera hamborgaraveislu í golfskálanum var haldið að Myrkholti, þar sem hópurinn mun gista næstu daga. Óli tók kvöldfund og fór yfir hvernig best væri að skipuleggja spilið á morgun. Dagsskipunin er "skynsemi", og að menn gæti þess að nota dræverinn ekki meira en þörf er á, því völlurinn krefst þess að menn séu á braut.

Það er ræs hjá A-sveit kl. 06 í fyrramálið (fös) en kl. 08 hjá B-sveit, þannig að það er eins gott að hvílast vel.

Við stefnum á að setja inn myndir og færslur í lok hvers dags á meðan við erum hér ef heilsa og þrek leyfir.

Góður dagur að baki og drengirnir sjálfum sér og klúbbnum til sóma.

Sælt veri fólkið.

 Það var haldið á völlinn í bítið til keppni að morgni föstudags.

Strákarnir stóðu sig gríðarlega vel og komust báðar sveit í A-riðil, sem er stórglæsilegur árangur. Úrslit dagsins voru eftirfarandi:

A sveit :

Eyþór 75

Tumi 76

Ævarr 76

B sveit :

Víðir 76

Stefán 82

Kjartan 84

Þegar heim í Myrkholt var komið, var tekið vel til matar síns af frábæru hakki og spaghettí, a´la Ari og var það mál manna að þetta væri heimsklassa stöff. Þegar allir voru orðnir vel mettir, voru menn ekki búnir að fá nóg af golfi og því var haldið á Haukadalsvöll, þar sem voru spilaðar 9 holur á frábærum velli.

Þá er fyrsta umferð búin hér á Flúðum á Laugardegi.

A-sveitin vann alla sína leiki stórglæsilega og B-sveitin stóð sig líka glæsilega þrátt fyrir að hafa tapað sínum leikjum. Veðrið hér í dag er hreint út sagt frábært, sól og logn og algerar topp aðstæður.

Núna um 14:00 hefst svo barátta milli sveita GA-a og GA-b, þar sem báðar sveitir eru í sama riðli. Er óhætt að segja að þar verður hart barist....

Þá er laugardagurinn búinn hér á Flúðum og óhætt að segja að hann hafi verið viðburðarríkur. Hér skein sólin alveg með eindæmum í morgun og seinni partinn fengum við þessa fínu rigningu, svona til að kæla menn aðeins niður.

Barátta GA-a sveitar og GA-b sveitar var æsispennandi fram á lokasekúndur og fóru leikar þannig að Óskar/Kristján unnu Fannar/Danna á 18. holu, Ævarr vann Kjartan á 18. holu og Tumi vann Aðalstein á 21 holu eftir þriggja holu bráðabana.

Frábær dagur að baki og drengirnir allir til fyrirmyndar.

Á morgun er ræs rétt fyrir 06, þannig að stefnan er að fara að sofa snemma til þess að það sé von að menn verði úthvíldir á morgun.

Í fyrramálið mætir A sveitin okkar GK-a og B sveitin mætir GR-b. Það er mikll hugur í mönnum og ljóst að það verður allt lagt í sölurnar.

Fyrir hönd fararstjóra

Jói

Munaði ótrúlega litlu að A-sveit GA-strákanna næði á verðlaunapall....en enduðu í 4. sæti. B-sveitin í því 8. Þeir hafa sýnt að þeir eru gríðarlega góðir og efnilegir golfarar og eiga örugglega eftir að ná langt!