Sveitakeppni í gangi, sex sveitir frá GA

Nú um helgina taka alls sex sveitir frá GA þátt í Sveitakeppni GSÍ í mismunandi aldursflokkum.

Hér á Akureyri fer fram unglingaflokkur pilta 18 ára og yngri og er GA með þrjár sveitir. Í morgun fór fram höggleikur til að ákveða niðurröðun í riðla fyrir holukeppnina. Sveit GA með þá Kristján Benedikt, Tuma Hrafn, Víði Steinar og Stefán Einar náði þriðja besta skorinu, sameiginleg sveit GA, GHD og GÓ með þá Aðalstein, Aron Elí, Fannar Már, Arnór Snæ (GHD) og Þorgeir Örn (GÓ) lentu í 5.sæti í höggleiknum og leika því báðar þessar sveitir í efri riðlunum og eiga séns á Íslandsmeistaratitlinum. Sameiginleg sveit GA og GH með þá Mikael Guðjón, Þórarinn Kristján, Óskar Pál og Agnar Daða (GH) spilar í D riðli.

Á Hellu keppir sveit GA drengja 15 ára og yngri en hana skipa þeir Lárus Ingi, Gunnar Aðalgeir, Brimar Jörvi, Mikael Máni og Hákon Ingi. Þeir náðu 8.sæti í höggleiknum og keppa því í efri tveimur riðlunum en þar keppa 8 sterkustu liðin. 

Á Flúðum keppir sameiginleg sveit GA og GÓ í sveitakeppni stelpna en hana skipa þær Andrea Ýr, Ólavía Klara, Tinna Klemenzdóttir, Guðrún Fema (GÓ) og Sara Sigurbjörnsdóttir (GÓ). Þær byrjuðu á leik við sveit GKG og töpuðu þar 2-1 en Andrea vann sinn leik 4/3, næst leika þær við sveit GR.

Á Hellishólum fer fram 1. og 2. deild kvenna - eldri kylfinga. Þar eru konurnar okkar í 1.deild en sveitina skipa þær Anna Einarsdóttir, Birgitta Guðjónsdóttir, Dóra Kristín, Eygló Birgisdóttir, Halla Sif, Jakobína Reynisdóttir, Unnur Elva og Þórunn Anna. Þær lentu á móti feykisterku liði GK í fyrstu umferð og steinlágu 5-0. Í næsta leik spila þær við Nesklúbbinn.

Við hjá GA munum koma með frekari upplýsingar þegar líður á keppnirnar.