Styrktarmót handknattleiksdeildar KA á laugardag

Á laugardaginn næsta, 10. september, fer fram hið stórskemmtilega texas scramble mót - Styrktarmót handknattleiksdeildar KA.

Góð veðurspá er fyrir laugardaginn og eru ríflega 100 keppendur skráðir til leiks en ennþá er pláss fyrir fleiri. Skráning fer fram á golfbox en einnig er hægt að senda tölvupóst á jonheidar@gagolf.is eða hringja í síma 462-2974 til að skrá lið til keppni. Athugið að það þarf að hafa samband við GA til að fá rástíma í mótið. 

Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í höggleik með forgjöf ásamt nándarverðlaunum á öllum par 3 holum vallarins og lengsta drive-i á 15. braut.

Að móti loknu verður stutt lokahóf þar sem veglegir vinningar verða veittir og dregið verður úr skorkortum fyrir mjög flotta vinninga. Um leið og lokahófið er búið, eða um 19:00 hefst PubQuiz! Friðjón, hjá JaðarBistro veitingasölu verður með glæsileg tilboð á hamborgurum og drykk fyrir alla þá sem koma á lokahófið eða í PubQuizið. Glæsilegir vinningar eru fyrir fyrsta sæti í pubquizinu - en keppt verður í tveggja manna liðum.

Klukkan 20:00 hefst síðan kynningakvöld handknattleiksdeildar þar sem bæði KA og KA/Þór liðin verða kynnt til leiks fyrir komandi átök í vetur. Fyrsti leikur hjá strákunum er á föstudagskvöldið gegn Haukum á útivelli en stelpurnar hefja leik 16. september í Vestmannaeyjum gegn ÍBV.

Sala á ársmiðum verður á kynningakvöldinu og almenn gleði. Frábær tilboð af veitingum, bæði í fljótandi og föstu formi!

Við hvetjum sem flesta til að skrá sig í þetta bráðskemmtilega mót.