Stefanía Daney sigraði á Nýprent Open

Stefanía Daney Guðmundsdóttir GA, sem er 12 ára gömul, sigraði á Nýprent Open, sem er hluti af Norðurlandsmótaröðinni í byrjendaflokki stúlkna. Það mun kannski ekki alltaf þykja mikil frétt að 12 ára stúlka sigri á byrjendamóti, nema hvað Stefanía Daney er greind með ódæmigerða einhverfu og er að auki blind á hægra auga.

Stefanía byrjaði að sækja golfæfingar síðasta sumar en áhuginn er að kvikna nú af fullum krafti eftir að hún fór að mæta á æfingar í sumar hjá Ólafi kennara hjá GA.  Hún var í fyrsta skipti á golfvelli þegar hún var að leika á mótinu. Þá gerði hún sér lítið fyrir og fékk fugl á annarri braut, sem sagt annarri brautinni sem hún hafði þá aldrei nokkru sinnum leikið. Hún vippaði í holu fyrir utan flöt. Hún fékk að auki eitt par í mótinu.

Hún lék á 54 höggum, en leiknar voru 9 holur og verður það að teljast frábært skor af svo ungri stúlku.