Staða mála á Jaðri

Hitakaplar á 16 flöt
Hitakaplar á 16 flöt

Hér kemur smá pistill frá Steindóri vallarstjóra varðand baráttuna við klakann.

Janúarmánuður hefur að mestu farið í klakabræðslu þar sem klaki myndaðist í síðustu viku desembermánaðar. Ákveðið var að hefjast strax handa við að bræða loftrásir í klakann eftir að klakinn hafði verið á "seinni níu" í um 2-3 vikur. Búið er að bræða rásir og þar af leiðandi hefur loftað um á 9 flötum og heldur sú vinna áfram. Klakinn er heldur þynnri á flötunum núna en oft áður en er jafnframt yfir öllum flötum.

Klakinn virðist vera blautur neðst við svörðin og verður það að teljast jákvætt að hann sé þó ekki frosinn saman við svörðinn.

Nú eru nokkrir hitadagar í spánni og er þvi verið að blása snjó af flötum til að grípa tækifærið ef af alvöru hláku verður. Haldið verður áfram að bræða með hitaköplum þangað til allar flatir hafa fengið einhverja loftun. Þessar rásir sem myndast af köplunum flýta svo fyrir hlánun svo um munar þegar hlýnar.

 Ástandið á flötunum er enn gott og erum við því bjartsýnir á framhaldið þó við myndum alls ekki slá hendinni á móti nokkrum hláku dögum í febrúar.