Mikil aukning á spiluðum hringjum á Jaðarsvelli sumarið 2025

Sumarið 2025 var algjört metár í spiluðum hringjum á Jaðarsvelli en alls voru spilaðir 37.829 hringir frá opnun vallarins 12. maí fram til 19. október sem var síðasti dagurinn sem völlurinn var opinn í sumar. Þetta er aukning um rétt rúmlega 25% frá síðasta sumri sem var jafnframt metár í spiluðum hringjum en það var fyrsta árið síðan talningar hófust 2014 þar sem fleiri en 30.000 hringir voru spilaðir. 

Mestu munaði um fjölda hringja hjá GA félögum en 29.270 hringir (31.744 með mótshringjum) voru spilaðir af klúbbmeðlimum í ár en má rekja það til aukningar í klúbbnum um rúmlega 140 meðlimi í ár. Þeir félagsmenn sem eru í klúbbnum eru líka farnir að spila fleiri hringi en áður og nýta völlinn sinn betur sem er mikið gleðiefni. Einnig má rekja eitthvað af aukningu til þess að vellinum var tvískipt í byrjun sumars til og með 23. maí og svo aftur frá og með 1. september og með því eru fleiri rástímar í boði fyrir þá sem vilja eingöngu spila 9 holur af golfi. Þess má til gamans geta að fyrsta daginn sem Jaðarsvöllur var opinn voru 397 rástímar bókaðir! 

Frá opnun vallarins og út september voru að meðaltali spilaðir 194 hringir af GA félögum á dag (að undanskyldum golfmótum) samanborið við 159 í fyrra og er því verið að nýta sér þá rástíma sem í boði eru á Jaðarsvelli töluvert betur en undanfarin ár. 

Ljóst er að það liggur mikil vinna á bakvið það að anna þeirri eftirspurn sem er í spil á Jaðarsvölli og má þakka þrotlausri vinnu vallarstarfsmanna og annarra starfsmanna GA það að völlurinn var í glæsilegu ásigkomulagi þeir sem vildu komast í golf komust í golf á iðagrænum og fallegum golfvelli.