Sprenging í golfhringjum GA félaga á Jaðarsvelli

Í sumar varð mikil fjölgun spilaðra hringja hjá GA félögum en þeir spiluðu 21.091 golhring og ef taldir eru mótshringir voru þeir 23.130.
Það er mikið gleðiefni að GA félagar séu að spila fleiri golfhringi á sínum heimavelli og hefur fjölgun meðlima sitt að segja í þesusm tölum. Þrátt fyrir aukningu í gestum og erlendum kylfingum finna GA félagar sér tíma á vellinum til að spila og er hægt að fullyrða að skipting Jaðarsvallar á golfbox í september og október í tvo 9 holu velli eykur einnig rástímaskráningu GA félaga. Ef tekið er meðaltal yfir spilaða hringi á dag hjá GA félögum voru þeir rétt um 125 á dag miðað við 120 í fyrra, 111 árið 2021 og 108 árið 2020. 

Fjöldi mótshringja í ár var á pari við árið á undan en alls voru 3962 mótshringir spilaðir í ár og er það svipað og árin 2014-2020, þar af voru 2039 (51,5%) hringir spilaðir af GA félögum og 1923 (48,5%) af öðrum kylfingum. Fullt var í Hjóna- og parakeppni Icelandair og GA eins og undanfarin ár sem og í Höldur/Askja Open. Þá voru 252 þátttakendur í Arctic Open mótið en uppselt var í mótið fyrir jólin 2022. Einnig voru 214 keppendur  í Icewear bombunni en aldrei hafa fleiri golfarar tekið þátt í því móti. Alls hélt GA 10 golfmót með fleiri en 100 þátttakendum og fjögur mót með fleiri en 200 keppendum. 

Í ár var einnig algjör sprenging í spiluðum hringjum af erlendum kylfingum en alls spiluðu þeir 444 hringi á Jaðarsvelli en frá því að talningar hófust árið 2014 hafði þessi tala hæst farið í 341 hring árið 2016. Það er greinilegt að Jaðarsvöllur er eftirsóknarverður á meðal erlendra kylfinga en nú þegar hafa til að mynda rétt um 40 erlendir kylfingar skráð sig í Arctic Open á næsta ári og nokkrir aðrir hafa óskað eftir rástíma á Jaðarsvelli fyrir sumarið 2024.