Sigurður Stefánsson sæmdur gullmerki GA

Á aðalfundi GA í gær voru eftirfarandi aðilar sæmdir silfur og gullmerki klúbbsins.

Gullmerki GA var veitt Sigurði Stefánssyni, Sigga samba

Sigurður Stefánsson eða Siggi Samba eins og við þekkjum hann gekk í Golfklúbb Akureyrar árið 1964 og hefur verið samfellt félagsmaður klúbbsins síðan og spilað golf flesta daga sem opið er. Fljótlega fór hann í stjórn og sá meðal annars um kappleikjanefnd og átti lengi sæti í húsnefnd. Hann  starfaði á árum áður í stjórn klúbbsins með einhverjum hléum og sinnti ýmsu svo sem viðgerðum á vélum allt frá fyrsta traktor félagsins Farmall Kubbs sem hann og Rafn Gíslason fengu umboð á sínum tíma til að ganga í að  kaupa. Sigurður lagði mikla vinnu í uppbyggingu hér á klúbbhúsi að Jaðri ásamt fjölmörgum sjálfboðaliðum öðrum, hélt hann utan um þetta starf og til gamans má geta þess að hann skráði alla tíma sjálfboðaliða árið 1984 sem voru um 1600 tímar. Klúbhúsið var vígt 30. apríl 1985. Ekki síður má geta þess að á hverju ári hefur Sigurður mætt á nánast alla ef ekki alla þá vinnudaga sem klúbburinn hefur verið með undanfarin ár hér að Jaðri. Hann  hefur því  um árabil unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu Golfklúbbs Akureyrar.   

Sigurður hefur tekið þátt í flestum Akureyrarmótum síðan hann hóf að iðka golfið síðast núna 2012. Varðandi afrek sín í golfinu segir Sigurður að þau séu nú ekki mörg og stór hans mottó hafi alltaf bara að vera með og lítur hann á golfið fyrst og fremst sem útivist og hreyfingu. Sigurður fékk silfurmerki klúbbsins árið 1985 og er nú sæmdur gullmerki klúbbsins.

Silfurmerki GA voru veitt þeim: Gunnari Vigfússyni og Magnúsi Ingólfssyni

Gunnar Vigfússon hefur starfað mikið fyrir Golfklúbb Akureyrar í mörg ár. Hann sat í unglinganefnd í nokkur ár og var formaður hennar um tíma. Gunnar hefur verið í kappleikjanefnd klúbbsins undanfarin ár og unnið þar mikið starf. Gunnar hefur setið í stjórn Golfklúbbsins í 10 ár eða síðan 2004.

Magnús Ingólfsson hefur um árabil unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu Golfklúbbs Akureyrar. Ef kallað er eftir sjálboðaliðum þá er Magnús fyrstur manna að mæta. Hann hefur verið í vallarnefnd í mörg ár og sinnt miklu starfi innan hennar. Magnús hefur líka í gegnum árin unnið mikið við alla uppbyggingu á inniaðstöðu klúbbsins og viðhaldi á klúbbhúsi og útihúsum hér að Jaðri.