Samherji styrkir samfélagsverkefni

Samherji hf. boðaði til móttöku í gær í KA-heimilinu á Akureyri og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu upp á 75 milljónir króna. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var viðstaddur afhendinguna.

Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er fjórða árið í röð sem Samherji afhendir slíka styrki.

Þátttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur í forvörnum og uppeldi. Samherji vill efla þjálfun og annað starf félaganna og um leið stuðla að því að sem flest börn og unglingar geti stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stendur til. Fjármununum skal varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnisferðir þeirra.

Golfklúbbur Akureyrar fékk við þetta tækifæri styrk að upphæð kr. 600.000.-

Fyrir hönd allra barna – og unglinga í Golfklúbbi Akureyrar sendum við okkar bestu þakkir til Samherja.

Mynd fengin á Vikudagur.is