Rekstrarsamningur við Akureyrarbæ endurnýjaður

Í gær undirrituðu Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri GA og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar undir nýjan rekstrarsamning milli Akureyrarbæjar og Golfklúbbs Akureyrar.

Gamli rekstrarsamningurinn hefur verið í gildi síðan í október 2001.  Frá árinu 2009 hefur samningurinn ekkert hækkað og því ljóst að þörf var á hækkun á rekstrarframlagi bæjarins til GA.

Golfklúbbur Akureyrar gegnir mikilvægu hlutverki hér á svæðinu.  Það eru um 650 félagar í GA og þarf af eru börn og unglingar um 120.  Hjá GA er rekið öflugt og gott unglingastarf auk þess sem kylfingar á öllum aldri og getustigum geta spilað og æft golf við góðar aðstæður allt árið um kring.  Í byrjun vetrar var inniaðstaða GA opnuð formlega og telst  hún ein sú besta á landinu.

Jaðarsvöllur er einnig vinsæll viðkomustaður ferðamanna og er hann mikið heimsóttur sem skilar sér í tekjum til bæjarfélagsins.

Eins og kom fram hér að ofan þá hefur rekstrarstyrkur Akureyrarbæjar staðið í stað síðan 2009.  Frá þeim tíma hafa nánast öll þau aðföng sem GA þarf til rekstur golfvallarins hækkað mikið í verði og allur rekstur því orðinn dýrari.

Er það því mikið fagnaðarefni að náðst hafa samningar um hækkun á rekstrarstyrk sem á án nokkurs vafa eftir að skila sér í bættum gæðum golfvallarins.

Þessi hækkun hefur því mikið gildi fyrir GA og viljum við koma á framfæri kæru þakklæti til forsvarsmanna Akureyrarbæjar, íþróttaráði og íþróttafulltrúa Akureyrar fyrir mikinn skilning á okkar málefnum sem og gott samstarf.

Það er okkar von að Golfklúbbur Akureyrar eigi eftir að eflast enn frekar á komandi árum og styrkja þannig okkar frábæra bæjarfélag þar sem mikil áhersla er lögð á öflugt, gott og fjölbreytt íþróttalíf fyrir alla aldurshópa.