Óskrifaðar reglur í golfinu

Þessi skemmtilega grein er fengin að láni frá kylfingur.is og nokkrar góðar óskrifaðar reglur á golfvellinum.

Við vitum öll hve mikið er til af golfreglum. Þær eru mikilvægar til að halda sanngirni og samræmi í leiknum svo hægt sé að keppa sín á milli. Það er hins vegar fullt af óskrifuðum reglum til. Þær munu ekki kosta þig auka högg en þær munu svo sannarlega skila sér í slæmum augnarráðum og fækkun á golffélögum.

9 helstu óskrifuðu reglurnar eru:

1 - Ekki ganga í púttlínu annarra.

Flestir vita af þessari en margir átta sig ekki á því að einnig á að gefa svæði í beinni línu fyrir aftan holuna.

2- Hafðu hljóð.

Það er mikilvægt að gefa leikfélögunum næði þegar þeir standa yfir boltanum sínum. Alltof algengt er að aðrir meðlimir hollsins séu í samræðum á háu tónunum á meðan félaginn slær. Það er einnig mikilvægt að taka tillit til annarra á vellinum. Oft liggja brautir nálægt og þá er um að gera að nota inniröddina rétt á meðan slegið er.

3 - Hleyptu framúr.

Ein verst virta reglan á þessum lista. Það er mörgum ljóst að hægur leikur er það sem hefur dregið hvað mest úr þátttöku í íþróttinni og því er gríðarlega mikilvægt að þegar holl leikur hægt að það hleypi hraðari spilurum fram fyrir. Það gerir alla glaða.

4 - Passaðu þig á skugganum.

Þetta verður sérstaklega mikilvægt þegar leikið er snemma á morgnanna eða seinni partinn. Það er fátt sem truflar jafn mikið og skuggi í púttlínu eða yfir boltanum þínum á teig.

5 - Ákveðið fyrirfram hversu löng pútt á að gefa.

Ef spilað er á léttu nótunum þá er ekkert að því að gefa styttri pútt. Bæði flýtir það leik og minnkar stressið. Það er hins vegar fátt jafn pirrandi og þegar þú gefur pútt en andstæðingurinn gerir ekki slíkt hið sama.

6 - Ekki þykjast vera golfkennari.

Láttu það vera að segja öðrum til úti á golfvelli. Ef að meðspilarinn biður ekki sérstaklega um aðstoð þá eru litlar líkur á því að hann vilji heyra afhverju hann „slæsaði“.

7 - Kallaðu FORE!

Ef þú hefur aldrei kallað FORE þá annað hvort ertu Tiger Woods eða einhver sem þarft að líta í eigin barm. Þetta snýst ekki bara um tillitsemi heldur öryggi. Ef minnsti möguleiki er á því að þú sláir í annan kylfing þá skaltu öskra eins og þú getur. Það gæti bjargað einhverjum frá alvarlegum meiðslum

8 - Lagaðu eftir þig.

Hver hefur ekki slegið í glompu og komið svo að boltanum sínum í fótspori. Það er einstaklega leiðinlegt að þurfa að líða fyrir það að aðrir lagi ekki eftir sig. Rakaðu glompur, settu torfusnepla til baka og lagaðu boltaför á flötunum. Hugaðu að vellinum þínum og hann verður betri fyrir það.

9 - Ekki láta skapið fara með þig.

Það eiga allir slæma daga. En það er eitt að eiga slæman dag sjálfur eða að eyðileggja daginn fyrir félögunum. Þegar ekkert gengur reyndu að taka því með jafnaðargeði, taka oftar upp boltann og hrósa félögunum meira. Það er ekkert leiðinlegra en að spila með fýlupúka.