Opnunartími í afgreiðslu GA - fleiri fréttir

Þá er allt komið á fullt á Jaðarsvelli en við opnuðum 14 holur í gær í blíðskaparveðri og voru 225 skráðir hringir á völlinn í gær sem er frábært.

Við stefnum á að opna holur 5,6,14 sem allra fyrst en ennþá er smá bið í að 11. hola verði leikfær vegna framkvæmda en þar er verið að gera nýtt forgrín og stækka flötina. 

Eftir fyrsta daginn er vert að minna kylfinga á að vera duglegir að gera við boltaför, eftir fyrsta daginn þar sem nær einungis voru heimamenn að spila mátti sjá mörg boltaför á grínum sem ekki var gert við. Til að grínin haldist góð og nái að vaxa og verða enn betri í sumar er gríðarlega mikilvægt að kylfingar venji sig á að gera undantekningarlaust við boltaförin sín og ekki er verra að gera við önnur sem þið sjáið á grínunum. Einnig er mikilvægt að laga boltaför á brautum en þær eru blautar eftir veturinn og því í viðkvæmu ástandi. 

Eins og við nefndum í gær þá var opnað fyrir bílaumferð á völlinn og eru það sérstök tilmæli frá starfsfólki GA að ekið sé með varkárni eftir vellinum og reynt að takmarka bílaumferð við stíga og röff eins og hægt er.

Þá er afgreiðslan á Jaðri opin alla virka daga frá 8-20 og 8-18 um helgar og verður það til 16.júní en þá mun afgreiðslutími lengjast. 

Við hlökkum til að taka á móti ykkur í sumar.