Októbertilboð á kortum í golfherma GA og breytingar á bókunum.

Við verðum að sjálfsögðu áfram með októbertilboð á kortum í hermana okkar í vetur og er hægt að versla kortið í afgreiðslu GA alla virka daga á milli 8-16. Ef þið komist ekki á þeim tíma er hægt að senda póst á jonheidar@gagolf.is og við finnum út úr því.

Við stefnum á að opna Golfhöllina á næstu vikum, í síðasta lagi 1. nóvember og vorum við að klára að versla nýjan hágæða skjávarpa í Trackman 1 svo núna verða báðir hermarnir útbúnir glænýjum eins skjávörpum og trackman hermum.

Við munum taka upp nýja bókunarsíðu í vetur þar sem kylfingar bóka tíma sjálfir og greiða fyrir þá við bókun. Þeir sem eru með klippikort munu fá gjafakóða fyrir fjölda tíma í herminn sem þeir versla og nota kóðann þegar þeir bóka. Allt þetta mun verða til þess að auðveldara verður að halda utan um bókanir í hermana og verður þá minna um að fólk bóki tíma og mæti síðan ekki.

Við erum á lokametrunum að ganga frá nýrri heimasíðu fyrir bókanir og munum auglýsa hana þegar allt verður orðið klárt, fram að því verslar fólk klippikort hjá okkur sem mun síðan breytast í gjafakóða þegar síðan verður klár. Þeir sem eiga gömul kort með einhverjum skiptum á munu síðan þurfa að koma með kortin og fá inneign í formi gjafakóða fyrir þeim tímum sem eftir eru. 

Tilboðin af kortunum eru áfram 30% afsláttur af 10 og 25 skipta kortum og er því hægt að fá mjög ódýra tíma í herminn ef þetta tilboð er nýtt. Fyrir tvo aðila kosta því 30x2 tímar á besta tíma aðeins 50.100kr á mann sem er, eftir stutta rannsóknarvinnu, það ódýrasta sem boðið er upp á í golfhermum á landinu.

Við hvetjum að sjálfsögðu alla þá GA félaga sem ætla að nýta sér golfhermana í vetur að tryggja sér kort á þessum frábæru kjörum hjá okkur.