Öðrum degi lokið á Íslandsmóti 50+

Vestmannaeyjavöllurinn stendur alltaf fyrir sínu
Vestmannaeyjavöllurinn stendur alltaf fyrir sínu

Íslandmót eldri kylfinga fer fram í Vestmannaeyjum í ár og hafa kylfingar nú lokið tveimur hringjum. Veðrið hefur verið nokkuð rólegt þessa fyrstu tvo daga og eins og áður hefur komið fram eru þeir Ólafur Auðunn Gylfason og Björgvin Þorsteinsson að leika fyrir hönd GA í flokki 50 ára og eldri karla. Þeir bættu sig báðir milli daga og á öðrum hring kom Óli inn á 75 höggum og Bjöggi á 76. Óli situr í 10. sætinu á meðan Björgvin er í því 18.

Óli byrjaði ekki eins vel í dag og hann gerði fyrri daginn en hann var fjóra yfir pari á fyrri níu holunum, hann náði þó að snúa því við og spilaði seinni níu holurnar á einu yfir pari með tvo fugla. Bjöggi spilaði næstum því akkúrat öfugt við Óla en hann var á parinu eftir fyrri níu en náði ekki að halda því út og var sex yfir pari á seinni níu. Einnig er vert að nefna að skáfrændi okkar GA-inga hann Jón Gunnar spilaði 76-75 fyrstu 2 dagana og er hann í 8. sæti.

Við vonum að okkar menn haldi áfram að spila stöðugt golf og óskum við þeim góðs gengis.