Öðrum degi í Íslandsbankamóti unglinga á Jaðri lokið

Íslandsbankamót unglinga er áfram í fullum gangi hérna uppi á Jaðri og var spilað í öllum flokkum í gær. Það var blíðskaparveður í gær þó að það hafi verið skýjað þá var nokkuð hlýtt og afar lygnt. Hvorki meira né minna en 116 keppendur spiluðu í gær og sáust flottir taktar inn á milli. GA á 16 kylfinga í þessu móti sem er glæsileg þátttaka og eru þau öll að standa sig með stakri príði.

Í flokki stráka 17-18 ára eigum við tvo keppendur, þá Gunnar og Lárus. Gunnar spilaði annan hringinn á 80 höggum og er jafn í 15. sæti þegar einn hringur er eftir. Lárus spilaði á 75 höggum í gær og er í þriðja sæti, einu höggi á eftir þeim sem leiða. Andrea Ýr spilar fyrir okkar hönd í flokki 17-18 ára stelpna og spilaði hún annan hringinn á 78 höggum og leiðir sinn flokk með hvorki meira né minna en 9 höggum.

Í flokki 15-16 ára karla keppa fjórir fyrir hönd GA og spiluðu þeir frábært golf á fyrsta hring. Mikael Máni spilaði á 77 höggum og er jafn í áttunda sæti. Starkaður spilaði heldur betur vel í gær og kom hann inn á 73 höggum og situr hann einn í þriðja sæti. Patrik kom inn á 72 höggum í gær og hann situr einn í öðru sætinu. Óskar Páll spilaði best í þessum flokk en hann kom inn á pari vallarins, 71 höggi og er að leiða fyrir síðasta hring. Glæsilegur hringur hjá þeim þrem og töluverð lækkun í forgjöf. Guðrún María keppir svo í flokki 15-16 ára stelpna en hún átti erfiðan dag í gær, kom inn á 109 höggum og er í 9. sæti.

Í flokki 14 ára og yngri pilta spila 4 fyrir hönd GA og eru 2 þeirra í toppbaráttunni. Kristófer spilaði á 109 höggum í gær og er í 17. sæti, Snævar spilaði á 91 höggi og er jafn í 12. sætinu. Veigar og Skúli spiluðu glæsilegt golf í gær en Veigar spilaði á 78 höggum og situr hann í 4. sætinu, Skúli kom inn einu höggi betri á 77 höggum og er hann í 3. sætinu. GA á einnig 4 keppendur í flokki 14 ára og yngri telpna, þar átti Kara Líf erfiðasta daginn en hún kom inn á 105 höggum er jöfn í 14. sætinu. Marta Þyrí er í 13. sætinu en hún spilaði á 103 höggum og Auður kom inn á 101 höggi og situr í 12. sæti. Best í þeim flokki spilaði Birna en hún spilaði á 95 höggum og situr í 8. sæti.

Svo mótið byrjar vel hjá okkar fólki og þau eru klúbbnum svo sannarlega til sóma. Við hvetjum alla félaga GA til að gera sér leið uppá völl og fylgjast með krökkunum okkar spila lokahringinn í dag!

Myndir frá degi 2 má sjá hér að neðan.

islandsbanka_dagur2_2019