Nýtt metár í sögu Jaðarsvallar - aldrei fleiri spilaðir hringir!

Nú á næstu dögum munum við birta skemmtilega tölfræði yfir spilaða hringi á Jaðarsvelli frá árinu 2021. 

Áfram heldur Jaðarsvöllur að laða að sér ferðafólk og kylfinga en í fyrra var algjör sprenging í golfi á Íslandi og fundum við vel fyrir því á Jaðri. Í ár var haldið áfram að bæta í og að slá met. Akureyri var vinsæll áfangastaður fyrir golfferðir í ár en Covid-19 hélt Íslendingum meira í heimahögunum og voru fjölmargir sem lögðu leið sína norður í blíðuna í stað þess að skreppa til Spánar. 

Í sumar var völlurinn opinn í 149 daga en það eru færri dagar en undanfarin ár. Við opnuðum völlinn 19. maí og voru síðustu hringirnir spilaðir 15. október. Veturinn kom fyrr en síðustu ár en í staðin fengum við frábært sumar en veðrið var með besta móti í allt sumar, lítil úrkoma og mikill hiti, sannkallað Spánarveður. 

Heildarspil skráðra hringja var 27.565 sem er bæting upp á tæplega 600 hringi frá því í fyrra sem var metár hjá klúbbnum. Við viljum halda áfram að biðla til GA félaga að skrá sig á teig þegar þeir fara að spila en það er mjög mikilvægt fyrir okkur svo við getum haldið sem best utan um tölfræðina á Jaðarsvelli.

Að meðaltali voru spilaðir 185 hringir á dag á Jaðarsvelli sem er aukning um 23 hringi á dag frá því í fyrra. Í júní, júlí og ágúst voru að meðaltali spilaðir 228 hringir sem er bæting um 16 hringi á dag miðað við árið 2020. 

Ljóst er að spilaðir hringir hefðu verið enn fleiri ef völlurinn hefði verið opin lengur í ár en engu að síður erum við gríðarlega ánægð með umferðina á völlinn í sumar og þökkum öllum þeim kylfingum sem lögðu leið sína á Jaðarsvöll kærlega fyrir komuna og hlökkum við til að taka á móti enn fleiri kylfingum á næsta ári. 

Jón Heiðar