Næst síðustu umferð í Íslandsmótinu lokið

Það rigndi hressilega á keppendur í morgun en þá voru spiluð undanúrslit í öllum flokkum. Kuldinn beit hressilega í krakkana en þau hristu það af sér eins og ekkert væri og spiluðu fínasta golf. Eins og fram kom í gær áttum við í GA 6 unglinga í undanúrslitum og komust 4 þeirra áfram í úrslitin sem er ekkert nema glæsilegt!

Andrea Ýr sigraði sinn leik í morgun 5/4 og mætir Jóhönnu Leu úr GR í úrslitunum á eftir í flokki 15-16 ára telpna.

Óskar Páll átti erfiðan morgun og náði sér ekki almennilega á strik fyrr en of seint var. Han tapaði sínum leik 5/4 en keppir um bronsið á eftir!

Lárus Ingi spilaði svakalega spennandi leik í morgun sem fór alla leið í bráðabana, Lárus hafði betur þar á 20. holu. Hann mætir Sveini Andra úr GS í úrslitunum á eftir.

Tumi Kúld og Kristján Benedikt áttust við í innanfélagsslag í morgun þar sem Kristján hafði betur að lokum 2/1. Kristján komst þar með í úrslitin þar sem hann mætir Kristófer Orra úr GKG.

Víðir Steinar átti gífurlega erfiðan leik í morgun sem fór í bráðabana en þar laut Víðir í lægra haldi á 19. holu. Hans bíður því bronsleikur á eftir á móti Tuma Kúld.

Það á aðeins að hlýna eftir því sem líður á daginn og hvetjum við allt GA fólk til að rífa upp regnhlífina og mæta uppá völl til að sýna okkar fólki stuðning í úrslitunum!