Mummi Lár valinn sjálfboðaliði ársins hjá Golfsambandi Íslands

Á formanni fundi GSÍ sem haldinn var um nýliðna helgi var Mummi Lár valinn sjálfboðaliði ársins.

Hér að neðan er frétt frá GSÍ:

Guðmundur E. Lárusson, félagi í Golfklúbbi Akureyrar, fékk viðurkenningu sem sjálfboðaliði ársins á formannafundi GSÍ sem fram fór á Selfossi 12. nóvember s.l. Guðmundur er betur þekktur sem Mummi Lár á Akureyri og var hann mjög virkur í sjálfboðaliðastarfinu sem unnið var í aðdraganda Íslandsmótsins í golfi sem fram fór með glæsibrag á Jaðarsvelli sumarið 2016.

Í umsögn um sjálfboðaliða ársins segir m.a.:
Í gegnum árin hefur ávallt verið mikið og öflugt sjálfboðaliðastarf unnið hjá Golklúbbi Akureyrar og er það klúbbnum virkilega mikils virði. Árið í ár hefur verið sérstaklega viðburðarríkt hjá GA, golfskálinn á Jaðri var tekinn í gegn að innan auk þess sem Klappir, nýtt og glæsilegt æfingasvæði var byggt. Stór hluti þeirra vinnu á bakvið þessi verkefni var unninn í sjálfboðaliðavinnu. Einn af þessum frábæru sjálfboðaliðum er Guðmundur E Lárusson félagi í GA til margra ára.

 

Guðmundur mætti og tók til hendinni þegar farið var í það í desember síðastliðnum að skipta um gólfefni í golfskálanum og var hann þar ásamt fjölda sjálfboðaliða og var öll sú vinna unnin í sjálfboðaliðavinnu. Þegar að þeirri vinnu lauk hófst klúbburinn handa við það að gera jarðhæðina í skálanum nánast fokhelda og koma þar upp flottri búningaaðstöðu. Guðmundur, eða Mummi Lár eins og hann er þekktur undir norðan heiða mætti til vinnu alla morgna frá því að framkvæmdir hófust og þar til þeim lauk um mánaðarmótin maí/júní, auk þess mætti hann um kvöld eða helgar þegar aðrir sjálfboðaliðar mættu og tóku til hendinni. Þetta gerði hann allt sem sjálfboðaliði og lagði þarna sitt af mörkum til að gera þá aðstöðu sem GA býr yfir í dag jafn góða og raun ber vitni um.“

Mummi Lár

Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA bætir eftirfarandi við:

„Við hjá GA erum alveg ótrúlega heppin með allan þann fjölda GA félaga sem er tilbúinn að leggja á sig mikla vinnu til þess að sjá klúbbinn sinn stækka og dafna og er það alveg klárt að GA væri ekki á þeim stað sem hann er á í dag ef ekki væri fyrir alla þessa frábæru GA félaga. Við erum hér með hóp fólks sem leggja hart að sér og eru ávallt reiðubúnir að hjálpa og er það ómetanlegt. Árið í ár hefur verið sérstakt hjá okkur og mikið um að vera og það hefur verið virkilega gaman að taka þátt í þessu öllu og sjá alla samstöðuna og drifkraftinn í okkar fólki. Það er GA gríðarlega mikils virði öll sú vinna sem þetta fólk innir af hendi og gerir það að verkum að klúbburinn getur ráðist í stærri verkefni, eins og t.d. byggingu á Klöppum og endurnýjun á golfskálanum. Svo héldum við hér í sumar glæsilegt Íslandsmót þar sem okkar sjálfboðaliðar spiluðu stórt hlutverk og stóðu sig frábærlega svo eftir var tekið. Vil ég því nota tækifærið hér og þakka þeim enn og aftur fyrir sitt framlag til GA.“

Óskum við Mumma innilega til hamingju með þessa tilnefningu