Mikil spenna í Íslandsmótinu í holukeppni

Það er ljóst hvaða kylfingar mætast í undanúrslitum í kvennaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni á Eimskipsmótaröðinni. Mótið fer fram hjá okkur hér á Jaðarsvelli.

Nú í morgun hófust undanúrslitin í holukeppninni.  Signý Arnórsdóttir úr GK og Heiða Guðnadóttir GM eigast við en Signý hefur tvívegis sigrað í þessari keppni en Heiða aldrei. Í hinni undanúrslitaviðureigninni leika Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Anna Sólveig Snorradóttir úr GK.

Ólafía er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi en hún lagði Tinnu Jóhannsdóttur úr GK í gær í riðlakeppninni í úrslitaleik um hvor þeirra færi í undanúrslit. Tinna hafði titil að verja á mótinu.

Það er ljóst að nýtt nafn verður skrifað á Íslandsmeistarabikarinn í holukeppni í karlaflokki. Benedikt Sveinsson úr Keili sló út Kristján Þór Einarsson úr GM sem hafði titil að verja í átta manna úrslitum.

Gríðarleg spenna var í átta manna úrslitunum og fóru tvær viðureignir í bráðabana. Úrslitin í viðureign Benedikts og Kristjáns réðust á 21. holu.

Það tók sinn tíma að útklá viðureignina hjá Stefáni Má Stefánssyni úr GR og heimamanninum Eyþóri Hrafnari Ketilssyni úr GA. Stefán hafði að lokum betur á 23. holu með því að fá par. Stefán tapaði í undanúrslitum í fyrra gegn Bjarka Péturssyni í þessari keppni.

Axel Bóasson úr Keili hafði betur gegn félaga sínum úr Keili, Sigurþóri Jónssyni - 4/3. 
Theodór Emil Karlsson úr GM hafði betur gegn Daníel Hilmarssyni úr GKG í hörkuviðureign, 2/0.

Axel og Stefán Már mætast í undanúrslitum, og Benedikt leikur gegn Theodóri. Undanúrslitaleikirnir fara fram fyrir hádegi áí dag sunnudag. Sigurvegararnir mætast í úrslitum eftir hádegi  og þeir sem tapa leika um bronsið á sama tíma.

Úrslitin í 8-manna viðureignum dagsins.

Kristján Þór Einarsson GM 
Benedikt Sveinsson GK - Benedikt sigraði á 21. holu.

Theodór Emil Karlsson GM 2/0 
Daníel Hilmarsson GKG

Stefán Már Stefánsson GR - Stefán sigraði á 23. holu. 
Eyþór Hrafnar Ketilsson GA 

Axel Bóassson GK 4/3 
Sigurþór Jónsson GK