Lokahóf barna- og unglinga GA

Það var vel mætt á lokahóf barna- og unglinga hjá GA sem fór fram á Jaðri þann 6. október. 

Heiðar Davíð hélt tölu þar sem hann fór yfir sumarið, ýmsa tölfræði frá sumrinu og árangur hjá GA krökkum. Barna- og unglingastarf okkar hefur vaxið gríðarlega mikið á síðasta árinu og hefur fjöldi barna- og unglinga aldrei verið eins mikill hjá GA og í dag.

Á Norðurlandsmótaröðinni tóku alls 51 kylfingur frá GA þátt í sumar, mest var á Ólafsfirði þegar 41 keppandi kom frá GA og má segja að þátttakan í sumar hafi verið með besta móti og erum við gríðarlega ánægð með kylfingana okkar að mæta vel í þessa skemmtilegu mótaröð. Alls 20 kylfingar tóku þátt í öllum mótunum í sumar og stefnum við að sjálfsögðu að því að gera enn betur á næsta ári.

Í Akureyrarmótinu og Golfgleðinni tóku 35 iðkendur þátt nú sumar og er það alltaf að stækka hjá okkur en Akureyrarmótið og Golfgleðin eru stærstu innanfélagsmótin hjá okkkur í GA. Í flokki 14 ára og yngri stelpna varð Kara Líf Antonsdóttir klúbbmeistari og í flokki 14 ára og yngri stráka varð Veigar Heiðarsson klúbbmeistari. Í Golfgleðinni í flokkum 12 ára og yngri voru það þau Auður Birna Snorradóttir og Hákon Bragi Heiðarsson sem fóru með sigur að hólmi.

Alls tóku 26 kylfingar þátt í þriðjudagsmótaröð barna- og unglinga í sumar. Það voru leikin átta 18 holu mót og nokkur 9 holu mót líka. Taka þurfti þátt í fjórum mótum að minnsta kosti til að geta talið til meistara í mótaröðinni þar sem fjögur bestu mótin telja. Efstu þrjú sætin í punktakeppni og höggleik voru eftirfarandi:
Höggleikur:
1.sæti - Lárus Ingi Antonsson 75,25 högg
2.sæti - Mikale Máni Sigurðsson 76 högg
3.sæti - Óskar Páll Valsson 77 högg
Punktakeppni:
1.sæti - Birna Rut Snorradóttir 38,75 punktar
2.sæti - Patrik Róbertsson 38 punktar
3.sæti - Skúli Gunnar Ágústsson 37 punktar

Að lokum látum við pistill þjálfara og lokaorð fylgja með og hlökkum til að sjá GA krakka aftur á æfingum hjá okkur í vetur þar sem golfið verður bætt enn frekar!

Það er búið að vera virkilega gaman að sjá starfið okkar vaxa í sumar og um 20 iðkendur bættust við starfið hjá okkur. Við Stefanía vorum í raun í smá vandræðum á tímabili yfir hásumarið að anna öllum þessum fjölda sem var að koma á æfingar hjá okkur sem er auðvitað bara jákvætt vandamál fyrir okkur að vinna úr. Yngstu iðkendurnir okkar hafa tekið mjög stór skref í sumar að okkur þjálfurunum finnst, þið eruð mun sjálfstæðari út á Dúddisen, miklu duglegri að eyða tímanum ykkar á æfingasvæðunum til að verða betri,  eruð orðin mjög góð í því að fylla út skorkortið ykkar, eruð röskari að spila, hugsið vel um völlinn okkar og eruð umfram allt mjög jákvæð og skemmtileg að vera í kringum sem er mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Við sáum meira að segja einhverja lækka forgjöfina sína í fyrsta skiptið í sumar og sjáum örugglega fleiri lækka forgjöf næsta sumar.

Á íslandsbankamótaröðinni vorum við með 18 iðkendur í einstaklingsmótunum og 19 iðkendur í liðunum okkar, 14 sinnum vorum við á verðlaunapalli. Því miður komu engir Íslandsmeistaratitlar í hús en það kemur bara á næsta ári. Það var samt sem áður gríðarlega gaman og spennandi að fylgjast með ykkur keppa á íslandsmótunum og vaxa með hverju mótinu í sumar. Það er til vitnis um framfarir hópsins í ár að við vorum með lið í undanúrslitum í íslandsmóti golfklúbba í öllum þeim flokkum sem við sendum lið. Við sendum stúlknalið og drengjalið í 15 ára og yngri og piltalið í 16-18 ára og öll þessi lið komust í undanúrslitaleiki og eitt liðið komst á pall. Í holukeppninni vorum við með þrjá aðila á palli. Í ísl í höggleik vorum við með keppendur í 5 flokkum og einstakling í lokahollinu í öllum flokkum, þrír þeirra enduðu á palli. 6 verðlaun alls sem er flott.  Það er alltaf þannig að litlu munar á þeim sem sigra mótin og þeim sem á eftir koma og í vetur ætlum við að minnka þennan mun enn meira og helst komast fram fyrir hina klúbbana.

Lokaorð – Takk fyrir sumarið, sjáumst á æfingum eftir 3 vikur, hlaðið batteríin á meðan, ef það er geggjað veður og ykkur langar í golf þá auðvitað skellið ykkur og reynið umfram allt að hafa bara gaman af því að spila. Við stefnum í geggjaðan vetur og truflað sumar 2020 – áfram GA.