Lárus Ingi og Veigar fengu afhenda bikara á dögunum

Veigar og Lárus með Heiðari Davíð þjálfara GA
Veigar og Lárus með Heiðari Davíð þjálfara GA

Á dögunum fengu þeir Lárus Ingi og Veigar afhenda bikara fyrir kylfing ársins 2020 og háttvísisbikar GA 2020. 

Lárus Ingi Antonsson er kylfingur ársins.

Lárus Ingi er  klúbbmeistari GA og náði hann 2. sæti í flokki 17-18 ára á Íslandsmóti unglinga í höggleik. Hann var hluti af liðum GA í Íslandsmóti Golfklúbba, bæði í 1. deild karla og flokki 18 ára og yngri þar sem liðið varð í 3.sæti.  Lárus var valinn í landslið 18 ára og yngri á þessu ári en komst því miður ekki út að keppa vegna heimsfaraldursins. 

Lárus er samviskusamur og hefur góða leiðtogahæfileika. Hann er öðrum kylfingum flott fyrirmynd í alla staði með góðri ástundun, reglusemi og hollum lífsstíl. Við óskum honum til hamingju með árangurinn á árinu sem er að líða og hlökkum til að styðja við hann á komandi ári.

Háttvísisbikar GA hlýtur Veigar Heiðarsson. 

Veigar stendur vel undir þessum titli en hann er hvetjandi, jákvæður og góður liðsfélagi. Ekki aðeins þeim sem eru  í GA heldur er hann þekktur fyrir að hrósa og hvetja mótherjann áfram í keppni. Veigar hefur ávallt sýnt sannan íþróttaanda í mótum og er fyrirmynd fyrir aðra kylfinga. Veigar náði afburðarárangri í sumar í sínum flokki þar sem hann bæði varð Íslandsmeistari og stigameistari. Einnig er vert að taka fram að hann var yngsti keppandinn til að komast inn á Íslandsmótinu í höggleik án þess að fara á biðlista og náði niðurskurðinum á því móti. Við í GA viljum óska Veigari til hamingju með verðskuldaðan titil.

Ekki tókst að veita þeim félögum bikarinn á aðalfundi GA síðasta vetur vegna samkomutakmarkana.