Lárus Ingi á leið til Bandaríkjanna í háskóla

Lárus Ingi Antonsson, klúbbmeistari GA undanfarin tvö ár, heldur af stað á vit ævintýranna til Bandaríkjanna nú seinna í sumar og stefnir á háskólanám í markaðsfræði og mun samhliða því spila fyrir Southern Illinois University (Saluki) í golfi. 

Skólinn keppir í 1. deild í NCAA keppninni og var Birgir Björn Magnússon í liðinu í fyrra en hann er sonur Magga Birgis sem kenndi hjá GA.

Við munum fylgjast spennt með Lalla næstu árin þarna úti og höfum fulla trú á því að hann muni bæta sinn leik enn meira úti og koma sterkari til baka.

Í samtali við GA kvaðst Lárus gríðarlega spenntur fyrir komandi tímum, skólinn væri flottur og væru miklir möguleikar fyrir frekari framförum í golfinu. Til gamans má geta að nú á dögunum komst fyrrum leikmaður Saluki, Luke Gannon, inn á Opna Bandaríska en hann útskrifaðist 2019 úr skólanum. 

Við óskum Lalla góðs gengis.