Kristján Benedikt yngstur í afrekshópi GSÍ

Kristján Benedikt Sveinsson úr Golfklúbbi Akureyrar var valinn í afrekshóp 18 ára og yngri

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari í golfi, hefur valið í afreks-og boðhópa GSÍ (A og B), að baki valinu liggja viðmiðunarreglur afreksstefnu GSÍ. Afrekshópur A er skipaður þeim kylfingum sem sýndu hvað bestan árangur í sínum flokkum á seinasta tímabili og í boðshópi (B) verða kylfingar sem ekki skipa Team Iceland eða A hóp en falla þó undir viðmiðunarreglu. Í kringum áramót verða svo 2-6 kylfingar valdir úr A hópi til að skipa Team Iceland hópinn. Að sögn Úlfars þá er hann ánægður með þann árangur sem náðist á árinu hér heima í mótaröðunum og einnig á mótum erlendis.

Kristján Benedikt Sveinsson úr Golfklúbbi Akureyrar var valinn í afrekshóp 18 ára og yngri og er hann yngstur þeirra sem hafa verið valdir hjá GSÍ í afrekshóp frá upphafi. Hann er 13 ára gamall.

"Breiddin hefur aukist hjá íslenskum kylfingum" að sögn Úlfars Jónssonar, "sem sagt, samkeppnin eykst! Þetta þýðir, að til að ná því markmiði að komast í fremstu mótaraðir atvinnumanna, þá þarf að vinna mjög fagmannlega á öllum sviðum."