Kristján Benedikt og Stefanía Kristín með vallarmet á Jaðri

Frétt tekin af kylfingur.is.

Tvö ný vallarmet hafa verið sett á Jaðri síðastliðna viku en eins og greint hefur verið frá á Kylfingi þá voru teknar til notkunar tvær nýjar brautir á vellinum.

Jaðar hefur tekið miklum breytingum á síðastliðnum árum og hafa vallarmet verið að detta út og inn við hverja breytingu. Nú er aftur á móti völlurinn fullbúinn og því er hægt að fara að halda utan um vallarmet fyrir alvöru.

Á seinni degi Arctic Open fór klúbbmeistari þeirra Akureyringa, Stefanía Kristín Valgerisdóttir, völlinn á 73 höggum á rauðum teigum eða tveimur höggum yfir pari og því hægt að segja að það met gæti staðið í einhvern tíma. Hún fékk einn tvöfaldan skolla, tvo skolla, tvo fugla og þrettán pör á þessum methring.

Í fyrradag á Miðvikudagsmótaröð þeirra Akureyringa fór Kristján Benedikt Sveinsson Jaðarsvöllinn á gulum teigum á 67 höggum eða fjórum höggum undir pari. Kristján er einungis 16 ára gamall og nýbakaður Íslandsmeistari í holukeppni unglinga. Hringurinn hans hljómaði upp á fjóra fugla og fjórtán pör en þess má geta að hann hitti allar flatir vallarins í „regulation“.

Meistarmót GA hefst á miðvikudaginn kemur og ættu þá að líta dagsins ljós ný vallarmet af hvítum og bláum teigum.