Íslandsmótið í höggleik

Ágætu GA félagar.

Nú er nýlokið Íslandsmótinu í golfi og er óhætt að fullyrða að mótið hafi verið hið allra glæsilegasta.

Veðrið var að mestu leyti virkilega gott, völlurinn var virkilega fallegur og svo var golfið sem okkar kylfingar spiluðu í einu orði sagt stórkostlegt.

Aldrei  í sögunni hefur verið svona lágt skor hjá bestu mönnum og konum.  Kvennaflokkurinn hefur aldrei nokkurn tímann unnist undir pari vallar.  Þær Ólafía Þórunn og Valdís Þóra spiluðu alveg stórkostlegt golf og komu inn eftir 72 holur á – 11 og -9 sem er hreint út sagt stórkostlegt og sýnir hversu góðir kylfingar þær eru. 

Hjá strákunum var gríðarleg spenna fyrir  lokadaginn og margir sem áttu góða möguleika á titlinum.  Fór það svo að reynsluboltinn Birgir Leifur Hafþórsson spilaði lokahringinn á 66 höggum og sigraði mótið á 8 höggum undir pari.  12 kylfingar léku undir pari í karlaflokki, sem er fjöldi sem aldrei hefur sést áður.

Við erum virkilega stolt af mótinu og framkvæmdinni og hvernig til tókst.  Við höfum fengið mikið af símhringingum og tölvupóstum og er það virkilega gaman að taka á móti þessum hamingjuóskum.

Það að halda Íslandsmótið í golfi er mikil og stór framkvæmd og það er alveg á hreinu að þeir sem eiga hvað stærstan þátt í því hvernig til tókst eruð þið GA félagar sem mættuð hér alla daga og buðuð fram ykkar aðstoð og gerðuð þetta mót að því sem það varð. 

Það er ómetanlegt að hafa svona mannauð hér í GA og erum við ykkur virkilega þakklát fyrir alla þá vinnu sem þið eruð tilbúin að leggja á ykkur til þess að aðstoða ykkar golfklúbb.  Það gerðuð það svo vel að eftir var tekið og töluðu fjölmargir kylfingar um það hversu gaman var að vera hér á Jaðri því það voru allir svo almennilegir og glaðir.  Birgir Leifur hafði sérstaklega orð á því í verðlauna afhendingunni sem fram fór hér á Jaðri um kvöldið hversu öflugir og flottir sjálfboðaliðar störfuðu við þetta mót og hvað það gerði upplifun kylfinganna sjálfra af mótinu miklu skemmtilegri og betri.  Þarna voru GA félagar og sjálboðaliðar að skapa stemmingu sem vafalítið hafði áhrif á árangur og skor keppenda. Svona umgjörð og vinnubrögð bæði eykur hróður golfíþróttarinnar og skapar jákvætt umtal um bæði hana og GA.

Við viljum því færa ykkur okkar bestu þakkir fyrir alla hjálpina og að gera þetta mót eins glæsilegt og raun bar vitni.

Sjónvarpið sýndi mikla og eftirtektarverða „golfsýningu“ í beinni útsendingu og allt samtarf og aðstoð við þá var með miklum sóma og þökkum við þeim kærlega fyrir það.

Ekki má gleyma að tala um þátt GSÍ, en allt samstarf við þau gekk afar vel og er það okkar mat að þessi fagmennska og þetta nána og hnökralausa samstarf allra þessara  aðila sé lykil þáttur í því hvernig til tókst með þetta glæsilega Íslandsmót.

Einnig viljum við þakka starfsfólki GA fyrir alla sína vinnu í kringum mótið, golfvöllurinn skartaði sínu fegursta og við sáum skor sem aldrei hafa sést áður á Íslandsmóti í golfi og svona skor sést ekki nema að aðstæður séu góðar!

Fyrir hönd stjórnar GA

Sigmundur Einar Ófeigsson, Formaður
Jón Steindór Árnason, Varaformaður