Íslandsmótið í golfi hafið

seth@golf.is
seth@golf.is

Íslandsmótið í golfi var formlega sett í morgun þegar Halla Sif Svavarsdóttir og Halldór Rafnsson slógu heiðurhögg á 1. teig, en þau eru fyrrverandi framkvæmdastjóri og formaður klúbbsins. Mikill undirbúningur hefur verið lagður í mótið og verður margt um manninn á Jaðri næstu daga. Þá fáum við ómetanlega hjálp frá sjálfboðaliðum við mótið og er gífurlega gaman að sjá þetta allt smella saman hjá okkur. Það var Haukur Örn Birgisson, formaður GSÍ, sem setti mótið. 

Yfir 150 keppendur eru skráðir til leiks í mótinu, 117 í flokki karla og 34 konur. Frábær mæting hefur verið hingað til á þessum fallega degi og má finna fólk um allan völl að dást að bestu kylfingum landsins. 

Við í GA eigum 13 keppendur í mótinu, 10 stráka og 3 stelpur, og erum spennt að sjá hvað okkar fólk gerir á heimavelli á næstu dögum. Þá ber að fylgjast vel með Lárusi Inga og Stefaníu Kristínu, ríkjandi klúbbmeisturum. Lárus kom í hús í dag á 75 höggum, en á mikið inni fyrir næstu daga. Stefanía Kristín fer út kl 15:40.