Hugmynd að nýju skipulagi Jaðarsvallar

Lögð hefur verið fram ný hugmynd að skipulagi Jaðarsvallar og er mynd af því kominn hér á vefinn neðar á síðunni til vinstri, í stað gamla uppdráttarins.

Lögð hefur verið fram ný hugmynd að skipulagi Jaðarsvallar. Hingað til hefur megin-viðfangsefnið verið að finna nýju og betra æfingasvæði nægt rými og bæta aðgengi að því. Fyrri tillögur hafa ekki náð að sameina jafn marga kosti og hér er náð. Tillagan gerir ráð fyrir að 8. og 9. braut verði lagðar af og að æfingasvæðið verði flutt þangað. Sláttusvæði, ýmist yfirbyggt eða grasteigar undir berum himni, yrði við gömlu æfingaflötina upp við klúbbhús. Í stað 8. og 9. brautar hafa verið skipulagðar tvær nýjar brautir á landspildu norðan golfvallarins sem GA fékk til afnota á liðnu sumri. Var þar komið upp, að frumkvæði klúbbsins, einföldum golfvelli sem almenningi stóð til boða að leika án endurgjalds.

Umrætt land er mjög áhugavert til golfleiks og fyrirséð að hinar nýju golfbrautir geti orðið góð viðbót við Jaðarsvöll. Yrðu þær leiknar á milli 4. og 5. brautar, eins og röðin er í dag, og yrðu þær því 5. og 6. braut eftir breytingu. Brautir nr. 5, 6, og 7, samkvæmt núgildandi röð, yrðu því brautir nr. 7, 8 og 9, en eins og flestum er kunnugt, þá liggur 7. flöt nærri klúbbhúsi.

Kostir við þessa tillögu eru þeir að aðgengi að æfingasvæði og notagildi stórbatnar. Einnig losnar landsvæðið þar sem æfingasvæðið er nú og verður því unnt að staðsetja upphaf og endi hins fyrirhugaða 9-holna aukavallar, sem er á framkvæmaáætlun klúbbsins innan fárra ára, nær klúbbhúsi.

Fyrri tillögur gerðu t.d. ráð fyrir að æfingasvæðið yrði áfram á sama stað og það er nú, nema með 90 gráðu snúningi með tilkomu viðbótarlands til vesturs. Við þá tillögu, sem og fleiri sem á undan komu, voru ýmsir ókostir sem bæði GA og hönnuði féll illa að sætta sig við og stefna að til framtíðar. Telja þessir sömu aðilar að hér sé fram komin lausn sem getur orðið varanleg og lagt grunninn að góðri og fjölbreytilegri aðstöðu fyrir kylfinga, sem unnt er að stjórna og þjónusta frá einum og sama miðpunktinum.