Héraðsdómaranámskeið í golfi

Héraðsdómaranámskeið verður haldið á vegum GSÍ og hefst það 2. mars næstkomandi.

Við GA félagar eigum því miður ekki marga golfdómara í dag og því viljum við hvetja sem flesta GA félaga til þess að skrá sig í þetta námskeið.  Ef góð þátttaka næst verður hægt að hittast upp á Jaðri og horfa á fyrirlestrana.

Hér að neðan má sjá upplýsingarnar sem GSÍ sendi út varðandi námskeiðið:

 

Dómaranefnd GSÍ hefur ákveðið tímasetningar héraðsdómaranámskeiðs á þessu vori. Í ár er námskeiðið haldið nokkru fyrr en verið hefur undanfarin ár og hentar það vonandi betur þeim sem stefna á golfferð til útlanda í kringum páskana.

 

Námskeiðið verður haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal og er dagskrá þess eftirfarandi:

  • Fyrirlestur 1, 2. mars kl. 19:00 – 22:00
  • Fyrirlestur 2, 4. mars kl. 19:00 – 22:00
  • Fyrirlestur 3, 10. mars kl. 19:00 – 22:00
  • Fyrirlestur 4, 12. mars kl. 19:00 – 22:00
  • Próf 17. mars kl. 19:00 – 22:00 og 21. mars kl. 10:00 – 13:00 (dagsetning að vali hvers þátttakanda)

Fyrirkomulag námskeiðsins er þannig að haldnir eru fjórir fyrirlestrar þar sem farið er ítarlega í allar almennar golfreglur, þ.e. reglur 1-28. Þeir sem vilja þreyta héraðsdómaraprófið að fyrirlestrunum loknum geta valið um að mæta í prófið annaðhvort 17. mars eða 21. mars. Þátttaka á námskeiðunum er ókeypis.

 

Í fyrra tókum við upp þá nýbreytni að sýna beint frá fyrirlestrunum á netinu fyrir þá sem ekki áttu kost á að mæta í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og var útsendingunni fyrst og fremst beint að þátttakendum á landsbyggðinni. Þessi tilraun tókst mjög vel og hefur því verið ákveðið að endurtaka leikinn í ár. 

 

Fyrirkomulagið er þannig að þátttakendur fá sendan tengil á netútsendinguna og er opnað fyrir útsendinguna u.þ.b. 10 mínútum áður en fyrirlestrarnir hefjast. Á meðan á útsendingunni stendur geta þátttakendur lagt inn skriflegar spurningar sem kennarar svara munnlega eftir bestu getu. 

 

Prófin 17. og 21. mars verða haldin í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Eigi þátttakendur á landsbyggðinni ekki kost á að þreyta prófin þar mun dómaranefndin bjóða upp á próf á landsbyggðinni skv. nánara samkomulagi við viðkomandi golfklúbba. Fulltrúi dómaranefndarinnar mun þá halda prófið en miðað er við að a.m.k. fjórir þátttakendur skrái sig í prófið.

 

Þótt kylfingar geti tekið þátt í námskeiðinu með því að fylgjast með útsendingunni heima hjá sér teljum við að þeir hefðu meira gagn af því að hlusta á fyrirlestrana í stærri hópi. Því viljum við hvetja golfklúbba til að hafa forgöngu um að bjóða félögum sínum að taka þátt í námskeiðinu með því að þeir horfi saman á útsendinguna í golfskálanum eða á öðrum heppilegum stað.  Við teljum að þetta geti verið gott tækifæri fyrir klúbbana til að efla félagslífið í klúbbunum, t.d. með því að sýna útsendinguna á skjávarpa eða stórum skjá með þokkalegum hljómgæðum. Þátttakendur geta aðstoðað hvern annan við reglunámið auk þess sem þetta eykur samheldni félaganna. Allra best væri ef dómari í klúbbnum hefði forgöngu um að hvetja félaga til þátttöku og sæti jafnvel með þeim á fyrirlestrunum, öðrum félögum til halds og trausts. Við ítrekum að skráning á námskeiðið felur ekki í sér skuldbindingu um að þreyta prófið. Ef félagar eru smeykir við að þreyta prófið er sjálfsagt að benda þeim á þetta og að þeir geta tekið ákvörðun um það eftir að fyrirlestrunum lýkur hvort þeir treysti sér í prófið eða ekki.

 

Tilkynna þarf þátttöku á námskeiðinu til domaranefnd@golf.is eða með því símtali til skrifstofu GSÍ, 514 4040. Skráningarfrestur er til hádegis 2. mars. 

 

 

Kveðja,

 

Dómaranefnd GSÍ