Golfklúbburinn og VÍS undirrita samstarfssamning

VÍS verður bakhjarl Golfklúbbs Akureyrar næst tvö árin og styrkir þannig klúbbinn til góðra verka

Ég er mjög stoltur að framlengja og efla enn frekar samstarfi okkar við Golfklúbb Akureyrar enda hefur VÍS verið bakhjarl klúbbsins um nokkurra ára skeið. GA er rekinn af mikilli fagmennsku og dugnaði og  sífellt meira púður sett í barna- og unglingastarf sem er mjög jákvætt fyrir golfíþróttina á Akureyri“, segir Magnús Jónsson umdæmisstjóri VÍS á Norðurlandi.
„Sjálfur þarf ég að fara að dusta rykið af kylfunum og sýna mitt rétta andlit í golfinu en undanfarin ár hef ég einungis mætt á nokkur mót og lítið æft. Ætli ég þurfi ekki að fara að bíta í það súra epli að hafa enga náttúrulega hæfileika í þessu sporti heldur sætta mig við að það er æfingin sem skapar meistarann.“

Halla Sif Svavarsdóttir framkvæmdastjóri GA er ánægð með samninginn. „VÍS og Golfklúbbur Akureyrar hafa átt mjög gott og farsælt samstarf til margra ára. Stuðningur fyrirtækja við íþróttastarf er mjög mikilvægur og viljum við þakka VÍS fyrir þeirra framlag til að efla golfíþróttina hér nyrðra.“