Golfklúbbur Akureyrar og Vídalín Veitingar endurnýja samstarfssamning

Nú í morgun var undirritaður nýr samningur milli GA og Vídalín Veitinga.

Á síðastliðnu ári hafa átt sér stað miklar breytingar í golfskálanum á Jaðri og öll aðstaða batnað til muna.  Eftir þessar breytingar sem hafa verið gerðar er það alveg ljóst að sú aðstaða sem nú er til staðar hefur hefur upp á mun meira að bjóða, sem gefur bæði klúbbnum sem og Vídalín Veitingum aukna möguleika í veisluhöldum og ýmsu öðru.

Vídalín Veitingar vilja að sjálfsögðu taka þátt í þessari miklu uppbyggingu með okkur og því hefur verið samið um  hærri leigutekjur til handa GA.  Það hefur ríkt mikil ánægja með það flotta og góða samstarf sem hefur verið frá árinu 2010 og því var núgildandi samningur framlengdur til ársins 2023. 

Það er okkar góða klúbb virkilega mikilvægt að hafa hér hjá okkur góðan vert og það höfum við svo sannarlega og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Í tilefni þessarar undirskriftar er gaman að segja frá því að náðst hefur samkomulag um endurnýjun á húsbúnaðinum í golfskálanum og munu því gömlu góðu borðin og stólarnir heyra sögunni til í vor og nýjar og glæsilegar mublur koma í staðinn!