Góður rekstur GA á árinu 2021 - aðlfundur 14. desember

Kæru GA félagar

Það er ljóst að golfárið 2021 var Golfklúbbi Akureyrar afar farsællt. Mikil aukning var á mörgum sviðum reksturs GA. Aldrei fleiri hringir hafa verið spilaðir á Jaðri en alls voru spilaðir 27.565 hringir. GA meðlimum fjölgaði talsvert en þeir telja nú rétt tæplega 900, af þeim eru 240 krakkar sem koma að golfiðkun hjá okkur. Barna- og unglingastarf blómstraði á árinu, mikil fjölgun og góður árangur náðist á árinu undir handleiðslu Heiðars og Stefaníu golfkennara GA. Það er því alveg ljóst að þörfin fyrir stærri og betri inniaðstöðu verður meiri og meiri. Mikilvægi þess að koma fyrir inniæfingaaðstöðu hér á Jaðri er mikil og er grunnurinn að frekari uppbyggingu og stöðuleika sem íþróttafélag.

Mótahald var áfram vinsælt, aukning var nánast í öll mót. GA heldur áfram að eiga nokkur af fjölmennustu mótunum á hverju sumri en það eru Arctic Open, Hjóna- og Parakeppni Golfskálans og GA og Höldur/Askja Open en þessi þrjú voru með rúmlega 200 keppendur. Íslandsmótið í höggleik fór fram dagana 5-8. Ágúst í frábæru veðri við mikla ánægju meðal keppanda og þeirra sem að því komu.

Rekstur ársins gekk vel, tekjur námu 210,6 m.kr. samanborið við 179,5 m.kr. árinu áður sem er 17% aukning. Rekstrargjöld voru alls 178,6 m.kr. samanborið við 154 m.kr. árið áður en þau hækkuðu um 16%.

Ebitda af rekstri var 42 m.kr. sem hækkar um 27% milli ára og er því hagnaður af rekstri GA eftir fjármagnsliði 26,3 m.kr.

 

„Eftir annasamt og veðursælt golfsumar er ekki annað hægt en að horfa björtum augum á framhaldið og hlakka til að takast á við undirbúning næsta golfsumars. GA er með frábæra félagsmenn sem skapa þennan góða sjarma sem félagið og völlurinn hefur. Gestir Jaðarsvallar eru okkur einnig mikilvægir og leggjum við mikið upp úr góðri þjónustu við þá sem og okkar félagsmenn. Jaðarsvöllur er gott og mikilvægt aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustu á Akureyri, hingað sækir fjöldinn allur af ferðafólki sem fleiri en GA njóta góðs af. Svo mikið að okkar samstarfsaðilar eins og td. veitingastaðir og hótel taka vel eftir og sækjast eftir okkar samstarfi. Samhliða uppbyggingu Jaðarsvallar síðustu tíu árin hefur eftirspurn aukist mikið sem er okkur mikilvægt, sbr fjölgun félags- og ferðamanna svo dæmi sé tekið. Fyrir hönd starfsfólks og stjórnar GA þökkum við fyrir gott ár og vonandi sjáum við sem flesta á nýju ári“ – Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdarstjóri GA.

 

Við minnum GA félaga á aðalfund okkar sem verður haldinn í Golfskálanum á Jaðri þriðjudaginn 14.desember kl 20:00. Fundinum verður einnig streymt á netinu í gegnum TEAMS.

Þeir sem hafa hug á að sitja fundinn eru beðnir um að skrá sig með því að senda nafn og kennitölu á jonheidar@gagolf.is og taka fram hvort viðkomandi sitji fundinn á staðnum eða í gegnum TEAMS.

 Hér má sjá ársreikning GA fyrir 2021

Hér má sjá skýrslu stjórnar GA fyrir 2021