Góður rekstur GA á árinu 2020 - aðlfundur 15. desember

Kæru GA félagar

Mikil fjölgun var á golfiðkun í ár en aldrei hafa fleiri hringir verið spilaðir á Jaðarsvelli eða 26.982 sem er 25% aukning frá 2019. Það má með sanni segja að árið hafi verið óvenjulegt og mikil óvissa ríkt en golfsumarið fór afar vel fram þrátt fyrir takmarkanir en íþróttin er þannig, að auðvelt var að halda leik áfram innan settra reglna. Mótahald gekk vel og voru stóru mótin okkar vel sótt. GA átti þrjú fjölmennustu opnu golfmótin í sumar og voru það Höldur/KIA open, Hjóna og Parakeppni Golfskálans og GA og svo Arctic Open en þau hafa vaxið ár hvert.

Rekstur ársins gekk vel, tekjur námu alls 179,5 m.kr. samanborið við 152 m.kr árinu áður sem er 18% aukning. Rekstrargjöld voru alls 154 m.kr samanborið við 143 m.kr árið áður en þau hækkuðu einungis um 7,6%.

Ebitda af rekstri er 33 m.kr sem hækkar um 67,5% milli ára og er því hagnaður af rekstri eftir fjármagnsliði 18,5m.kr.

“Við erum afar stolt af okkar miklu uppbyggingu á starfsemi GA síðustu ár. Það er ljóst að sú erfiðisvinna hefur skilað sér í aukinni ánægju meðlima, ferðamönnum og bættum grunni til betri reksturs. Við getum m.a. horft stolt á Klappir æfingasvæði sem er að skila okkur rúmum 10 m.kr á ári sem segir okkur að Klappir borga sig upp á 7 árum að meðtöldum rekstrarkostnaði. Einnig erum við að uppskera eftir mikla endurbyggingu á vellinum síðustu ár sem skilar sér í aukinni notkun og bættum aðstæðum hér á Jaðri. Framundan er áframhaldandi viðhald á velli, fasteignum og endurnýjun á vélarflota GA. Reksturinn á árinu gekk vel og er mikil tilhlökkun til sumarsins 2021 þar sem hápunkturinn verður Íslandsmótið í golfi dagana 5.- 8. ágúst. Fyrir hönd starfsfólks og stjórnar GA þökkum við fyrir gott ár og vonandi sjáum við sem flesta á nýju ári” - Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdarstjóri GA. 

Við minnum GA félaga á aðalfund okkar sem haldinn verður á netinu þriðjudaginn 15. desember klukkan 20:00. Þeir sem vilja sita fundinn eru beðnir um að senda tölvupóst á jonheidar@gagolf.is og skrá sig á fundinn. 

Hér má sjá ársreikning GA fyrir rekstrarárið 2020
Hér má sjá skýrslu stjórnar 2020