Glæsilegur árangur GA kylfinga um helgina

Stelpurnar og þjálfarar glöð með árangurinn
Stelpurnar og þjálfarar glöð með árangurinn

Um helgina fór fram sveitakeppni bæði karla og kvenna í meistaraflokki. Eins og áður kom fram byrjuðu báðar sveitir vel og sátu með 1 sigur og 1 tap eftir fyrsta keppnisdag. Sigur í síðasta leik riðilsins myndi því tryggja báðum sveitunum sæti í undanúrslitunum. Kvennasveitin steig upp og sigraði GV með yfirburðum, 5-0, og var þá ljóst að þær myndu mæta GR í undanúrslitunum. Þar héldu stelpurnar áfram að spila frábært golf. Leikirnir voru allir í járnum, en GR stúlkurnar reyndust of sterkar og höfðu þetta 4.5-0.5. 

Í leiknum um 3. sætið mættu okkar konur sveit GKG sem lauk með frábærum sigri, 3-2! Stelpurnar unnu því bronsið sem verður að teljast magnaður árangur hjá þessari ungu sveit. 

Strákarnir mættu sveit GOS í hreinum úrslitaleik um sæti í undanúrslitunum. Sá leikur var jafn frá upphafi til enda, og lauk með jafntefli 2.5-2.5. Það dugði okkar mönnum því miður ekki þar sem GOS var með fleiri leiki unna gegn hinum liðum riðilsins. Strákarnir spiluðu því 2 leiki gegn GK og GS, sem enduðu báðir 2.5-2.5 og skilaði það okkar mönnum 5. sætinu. Flottur árangur hjá strákunum sem spila áfram í deild þeirra bestu á næsta ári.

Þeir Skúli Gunnar Ágústsson og Veigar Heiðarsson léku vel í Finnlandi síðustu daga með landsliðinu. Skúli spilaði sína hringi á 78-80-72 og endaði í 31. sæti mótsins. Veigar spilaði sína hringi á 84-79-79 og endaði í 43. sæti. Við erum mjög stolt af öllu okkar fólki sem stóðu sig eins og hetjur um alla Evrópu, og ljóst líkt og áður, hvað framtíðin er björt.