Glæsilegu Íslandsmóti í holukeppni lokið á Jaðarsvelli

Mynd/seth@golf.is
Mynd/seth@golf.is

Þá er stórglæsilegu Íslandsmóti í holukeppni lokið á Jaðarsvelli en leikið var föstudag, laugardag og sunnudag. 

Það voru þau Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR og Axel Bóasson GK sem stóðu uppi sem sigurvegarar en þetta er í þriðja sinn sem Ólafía vinnur mótið og í annað skiptið sem Axel vinnur það en hann vann einmitt árið 2015 þegar mótið var haldið á Jaðarsvelli. 

Í úrslitaleiknum í karlaflokki mættust Axel og Hákon Örn úr GR og fór það svo að Axel sigraði á 18. holunni, 1/0. Leikurinn var frábær skemmtun fyrir þá fjölmörgu áhorfendur sem lögðu leið sína upp á Jaðarsvöll á sunnudeginum. Í kvennaflokki mættust Ólafía Þórunn og Eva Karen úr GR og sigraði Ólafía á 15. holu 4/3, Ólafía Þórunn sigraði alla sína leiki á mótinu líkt og Axel og þurfti Ólafía aldrei að spila fleiri en 15 holur, hún var með mikla yfirburði og spilaði frábært golf. Ragnhildur Kristinsdóttir sigraði Guðrúnu Brá 5/4 í leik um þriðja sætið og Guðmundur Ágúst landaði þriðja sætinu með 4/3 sigri gegn Ólafi Birni Loftssyni. 

Í viðtali við golf.is hafði Ólafía þetta að segja eftir titilinn: 
„Mér fannst þetta mjög gott mót og holukeppnin er alltaf skemmtileg. Það er eitthvað við staðinn, Akureyri og Jaðarsvöll, sem heillar mig. Ég veit ekki hvað það er en ég elska að spila hérna. Ég undirbjó mig vel fyrir leikinn gegn Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur í undanúrslitunum. Þar brenndi ég nokkrar heilasellur. Ég spilaði heilt yfir mjög vel í þessu móti en í úrslitaleiknum fann ég að ég hefði getað gert aðeins betur.“

Þá hafði Axel Bóasson þetta að segja:
„Mér finnst gaman alltaf gaman að spila hér á Akureyri, þegar ég var yngri þá var þetta minn uppáhaldsvöllur. Eftir að þeir breyttu vellinum þá varð hann enn betri. Það eru einhverjir galdrar við Akureyri og að vera hérna og það hefur góð áhrif, Ég sigraði í fyrsta sinn á Íslandsmótinu í holukeppni hér á þessum velli árið 2015 og það var gaman að upplifa þetta á ný.“

Við hjá Golfklúbbi Akureyrar viljum koma fram sérstökum þökkum til þeirra sjálfboðaliða sem veittu okkur aðstoð um helgina í ræsingu og skorskráningu, án þeirra hefðum við ekki náð að hafa þetta mót eins stórglæsilegt og það var. Þá er ekki hægt að sleppa því að þakka KA-TV fyrir aðstoðina með útsendinguna frá mótinu en með þeirra hjálp tókst okkur að halda úti útsendingu alla þrjá dagana af mótinu sem heppnaðist gríðarlega vel. Tæplega fimm þúsund manns horfðu á útsendinguna um helgina og viljum við þakka þeim kærlega fyrir áhorfið. 

Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína á Jaðarsvöll um helgina til að fylgjast með þeim allra bestu spila golf og var mikill mannstraumur sér í lagi á sunnudeginum í úrslitaleikjunum sem vð hjá GA erum sérstaklega ánægð með. 

Þá viljum við einnig þakka forystunni hjá Golfsambandinu fyrir frábæra samvinnu á meðan mótinu stóð og í aðdraganda þess, með hjálp þeirra tókst okkur að hafa Íslandsmótið í holukeppni 2020 eins glæsilegt og raun bar vitni.

Mynd/seth@golf.is

Mymd/seth@golf.is