GA eignast 2 Íslandsmeistara í golfi!!

Þvílíkur dagur!

Síðastliðna daga hafa afrekskylfingar á vegum GA keppt í Íslandsmóti unglinga í holukeppni í Grafarholtinu. Við áttum 2 kylfinga sem léku til úrslita í dag, þeir Veigar og Lárus Ingi, og Skúla Gunnar sem lék um bronsið. 

Skúli tapaði þeim leik 1/0 og endaði því í 4. sæti sem er glæsilegt hjá drengnum. 

Veigar Heiðarsson, sem sló Skúla út í undanúrslitunum, lék við Gunnlaug Árna Sveinsson í úrslitunum. Gunnlaugur kom inn í mótið efstur af stigalistanum og líklegur til að taka bikarinn í Kópavoginn. Veigar hafði hins vegar engann áhuga á því og lék þrusu gott golf í dag. Viðureignin var jöfn eftir 18 holur og því leikinn bráðabani upp á titilinn. Þar hafi Veigar betur á 20. holu og er því Íslandsmeistari 15-16 ára drengja í holukeppni 2021! Frábær drengur. 

Lárus Ingi Antonsson, klúbbmeistari, mætti sigurstranglegur til leiks í mótið. Eftir 3. sætið á Íslandsmótinu í höggleik og 2. sætið á Íslandsmótinu í holukeppni hlýtur sjálfstraustið að hafa verið í botni. Hann mætti Tómasi Hjaltested í úrslitunum og endaði leikurinn þannig að Lárus sigraði 1/0 og er því Íslandsmeistari. Það er ekki á hverjum degi sem við eignumst marga Íslandsmeistara svo við óskum þeim drengjum til hamingju með þennan frábæra árangur!